144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi rekstur heilsugæslunnar á Akureyri er ég ekki dómbær um það hvort Akureyrarbær hafi sett mikið eða lítið af fjármunum í hann. Hann undirgengst þennan samning sem bæjarstjórn Akureyrar gerði árið 2011 þar sem kveðið er á um ákveðið verkefni gegn ákveðinni fjárhæð. Það er á ábyrgð sveitarfélagsins, eins og hvers annars þjónustuveitanda eða verktaka, að vinna verkefnið samkvæmt greiðslu eins og lagt er fyrir í samningnum. Þannig eru á þessu ákveðnir agnúar vegna þess að hin faglega ábyrgð er þegar allt kemur til alls í heilbrigðisráðuneytinu vegna þess að það hefur hina endanlegu ábyrgð á málaflokknum þó að það hafi útvistað verkefnum. Það verður að segjast eins og er að í þeirri þjónustu sem heilsugæslan er gengur að mínu mati ekki þetta þjónustusamningaform. Þetta hlýtur að kalla á, og gerir það, að við verðum að hafa meiri sveigjanleika í fjármögnun einstakra þátta en þetta samningaform gefur tilefni til.

Það er reynsla mín og niðurstaða eftir að hafa rýnt þetta mál nyrðra. Annað gilti með reynslusveitarfélagalögunum allt fram til ársloka 2003 vegna þess að í þeim var kveðið á um að þetta verkefni byggði á þeim lögum. Þegar þau renna út gildir allt annað umhverfi.