144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:50]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra svolítið út frá fáfræði minni.

Nú er á Íslandi þannig kerfi að við borgum háa skatta og eigum fyrir þessa skatta að uppskera og fá greitt fyrir heilbrigðisþjónustu. Ég hef talað við mjög marga, ég hef talað við þingmenn, ég hef talað við marga í samfélaginu, um forgangsröðunina — og það væri kannski bara gott að gera skoðanakönnun um þetta og borga fyrir það — um forgangsröðun í fjárlögum. Og hver er forgangsröðun flestra? Forgangsröðun langflestra virðist vera sú að heilbrigðismál komi fyrst, flestir segja heilbrigðismál. Þegar barnið þitt veikist og þú þarft að vera frá vinnu, eða þú sjálfur veikist, er fjárhagsstaðan veik. Það er akkúrat þá sem maður vill ekki þurfa að hafa áhyggjur af fjármálum, þá vill maður geta einbeitt sér að barninu sínu eða geta einbeitt sér að því að batna. Kerfið hér er þannig uppsett að ríkið tekur að sér stærsta hlutverkið við þetta, en síðan eru alls konar hlutir sem standa út af sem þýða það að í raun þarf fólk að hafa áhyggjur þegar það veikist eða þegar börn þess veikjast.

Ég spyr af svolítilli fáfræði: Er einhver leið hérna á Íslandi — og ef hún er til hvað kostar hún? — að þurfa ekki að hafa áhyggjur af fjármunum þegar maður veikist eða þegar barnið manns veikist? Því nógar eru áhyggjurnar fyrir.

Ég vil inna hæstv. heilbrigðisráðherra eftir því hvort það sé til einhver leið á Íslandi og hvað hún kosti þannig að maður þurfi ekki að hafa fjárhagsáhyggjur og geti einbeitt sér barni sínu þegar það veikist eða eigin heilsu þegar maður veikist.