144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:54]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að nefna tvö prinsipp. Peter Drucker, faðir nútímastjórnunar, sagði að ástæðan fyrir því að ríkið tók yfir mikið af iðnaði í Bretlandi á sínum tíma hafi verið sú að einkamarkaðurinn sinnti honum ekki. Þessi faðir nútímastjórnunar vildi meina að helstu ástæður fyrir því að ríkið tæki yfir það sem einkaiðnaðurinn ætti að vera að sinna væru þær að hann sinnti því ekki.

Svo er það hitt og það er prinsipp sem fest er í lögum að minnsta kosti víðast hvar í Bandaríkjunum, veit ég. Ef aðili kemur að slysstað og stöðvar og byrjar að sinna þeim slasaða er hann ábyrgur fyrir því að hinum slasaða sé komið í réttar hendur. Aðrir hafa farið fram hjá og þá er hann ábyrgur fyrir þessu. Hvers vegna nefni ég þetta? Vegna þess að hið opinbera hefur stöðvað á slysstaðnum og sagt: Við ætlum að hugsa um trygginguna, við ætlum að hugsa um þig ef þú ert veikur. En síðan verður fólk veikt, ég man ekki töluna nákvæmlega, ég held að 11% landsmanna hafi þurft að neita sér um læknisþjónustu hér á Íslandi. Þannig að klárlega hefur ríkið sett upp fyrirkomulag þar sem það segir: Ég mun hugsa um þig, en síðan getur það ekki hugsað nægilega vel um fólk, alla vega ekki upp að því marki sem ég er að reyna að nefna hérna. Því fólk þarf að hafa fjárhagslegar áhyggjur ofan á áhyggjurnar sem það hefur þegar það veikist eða börn þess veikjast. Það er kerfi sem er hreinlega ekki gott og ég held að langflestir Íslendingar vilji ekki lifa við. Og einkamarkaðurinn hefur ekki stigið inn í þetta bil eða alla vega veit ég ekki um það og hæstv. heilbrigðisráðherra veit ekki hvernig hægt væri að tryggja það.

Er hægt að fara til tryggingafélags og tryggja sig upp í rjáfur þannig að maður þurfi ekki að hafa fjárhagsáhyggjur þegar maður veikist eða börn manns veikjast? Er það hægt á Íslandi? Ég veit það ekki, hæstv. heilbrigðisráðherra veit það ekki. (Forseti hringir.) Einkamarkaðurinn virðist ekki sinna þessu og hið opinbera hefur mætt á slysstað og sinnir þessu ekki.