144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:57]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hætti mér kannski ekki út í heimspekilegar hugleiðingar við hv. þingmann, en við lok þessarar umræðu vil ég þakka þingmönnum þá umræðu sem hér hefur átt sér stað og vonast eftir því að við munum eiga gott samstarf á næstu vikum og mánuðum um meðferð fjárlagafrumvarpsins. Við erum fús til þess að veita allar upplýsingar sem þörf er á í heilbrigðisráðuneytinu. Meginmarkmið okkar allra sem ég held að við séum öll sammála um er að þetta er þjónusta sem við viljum, allir Íslendingar, að sé vel sinnt og við getum treyst á. Ég leyfi mér að fullyrða að þó að við höfum ólíkar skoðanir og skiptumst á þeim oft í pontu séum við öll sammála um að það góða fólk sem er við störf í þessum þjónustugeira vinnur frábært starf, oft á tíðum undir mjög miklu álagi. Starf þessa fólks er mjög virt af þeim sem þurfa að nýta sér þjónustu þess. Það held ég að sé samandregið álit allra á íslenska heilbrigðisstarfsmanninum, ef svo mætti segja.

Enn og aftur, ég vil þakka fyrir þessa umræðu og vænti góðs samstarfs í framhaldinu.