144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Í ljósi þeirrar furðulegu stöðu sem er hér uppi, að forsætisráðherra neitar að ræða við þingið um fjárlögin hvað lýtur að hans málaflokkum, er talað hér um fagráðherra. Forsætisráðherra er með faglega þætti undir.

Ég tel rétt að koma í pontu og fara yfir hvað það er sem við erum að óska eftir umræðu um. Það er græna hagkerfið, Þjóðminjasafn Íslands, Minjastofnun Íslands, Fornminjasjóður, Húsafriðunarsjóður, Hagstofa Íslands og þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

Það væri ágætt að fá úr því skorið í forsætisnefnd hvort þessar stofnanir eigi virkilega ekki þann heiður skilið að við fáum hér að ræða við ráðherrann sem ber ábyrgð á tillögum um fjárveitingar til þeirra.