144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:14]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina og innleggið frá hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur.

Á þessu ári voru, eins og hv. þingmaður kannast ágætlega við, lagðir umtalsverðir fjármunir til viðbótar inn í almannatryggingakerfið. Það er óhætt að fullyrða að aldrei hafa farið hærri upphæðir en akkúrat núna árið 2014 inn í almannatryggingar.

Það eru nokkrir liðir sem mér vannst ekki tími til að fara í gegnum sem snúa að lífeyrisþegum. Það eru verðlagsbreytingar sem snúa að bótum. Það er gert ráð fyrir framlagi til að hækka tekjuviðmið uppbótar á lífeyri. Síðan mun núna þriðji áfangi samkomulags stjórnvalda og Landssamtaka lífeyrissjóða koma til framkvæmda 1. janúar 2015.

Það er líka gert ráð fyrir 656 millj. kr. vegna framkvæmdar svokallaðs samkomulags um víxlverkanir. Það verða ákvæði í frumvarpinu sem snúa að almannatryggingunum sem munu útfæra nákvæmlega hvernig það verður. Í ljósi þess að nefndin um almannatryggingar er ekki enn þá búin að skila af sér þrátt fyrir að menn fullyrði hér að vinnunni hafi verið nánast lokið (Gripið fram í.) hefur sú nefnd með fulltrúum hagsmunaaðila talið ástæðu til að taka sér töluverðan tíma í að vinna þetta og vinna það vel. Ég vænti þess að fá á næstunni tillögu frá þeim þar sem bæði er hugað að ellilífeyrisþegum og öryrkjum. Það mun að sjálfsögðu birtast í frumvörpum þegar þær tillögur liggja fyrir.

Hvað varðar síðan húsnæðismálin bendi ég á að í kaflanum um velferðarráðuneytið kemur sérstaklega fram fyrirvari við liðinn í húsnæðismálum þar sem frumvörpin um framtíðarskipan húsnæðismála hafa ekki enn komið fram. Í þingmálaskránni (Forseti hringir.) leggur forsætisráðherra til fyrir hönd félags- og húsnæðismálaráðherra að fjögur frumvörp verði lögð fram á þessu þingi sem byggja á tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og það má gera ráð fyrir að fjárlagafrumvarpið taki breytingum í samræmi við það.