144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:19]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Í texta fjárlagafrumvarpsins kemur fram að þær tillögur sem er núna að finna í fjárlagafrumvarpinu endurspegla að ekki séu gerðar breytingar á lögum um húsnæðismál. Þar er bara tekið tillit til þeirra aðgerða sem hefur verið gripið til á núverandi forsendum til að draga úr erfiðri fjárhagsstöðu Íbúðalánasjóðs. Eins og kemur fram í textanum er ekki gert ráð fyrir þeim væntanlegu tillögum sem munu koma fram í þeim frumvörpum sem eru boðuð í þingmálaskránni.

Þar er talað um frumvarp til laga um húsnæðisbætur. Engin drög voru til, ekki einu sinni uppkast, að breytingum á lögum um húsnæðisbætur. Við höfum verið algjörlega að frumvinna það og það er það mál sem ég hef lagt áherslu á að koma fyrst með af þeim fjórum frumvörpum sem ég hef boðað hér. Síðan legg ég mjög mikla áherslu á að frumvarp til laga um húsnæðismál komi mjög fljótlega í framhaldinu af því. Þar eru alveg grundvallarbreytingar sem snúa að þeirri löggjöf. Síðan eru frumvörp sem snúa að breytingum á húsaleigulögunum og húsnæðissamvinnufélagalögunum. Það er hægt að segja það sama um öll þessi fjögur frumvörp, að við höfum þurft að vinna þau frá grunni.

Síðan að því sem hv. þingmaður sagði um Fæðingarorlofssjóð. Eftir þau samtöl sem ég hef átt við aðila vinnumarkaðarins varð niðurstaða mín sú að það væri engin sátt til staðar um hvernig ætti að nálgast hlutina, ekki um þau lög sem fyrri ríkisstjórn setti eða um það sem ég hafði verið að ræða. Þess vegna tel ég rétt að skipa nefnd til að ná niðurstöðu því að hér erum við að tala um verulega fjármuni. Það eru áætlaðir 3,7 milljarðar í að bæði lengja og hækka greiðslurnar í það sem þær voru áður en fyrrverandi ríkisstjórn skerti greiðslurnar. (Gripið fram í.)

Síðan er önnur ástæða fyrir því (Forseti hringir.) að ég mun líka óska eftir því að Samband íslenskra sveitarfélaga komi að þessu, sú að rekstrarkostnaður við að tryggja leikskóla eða daggæslu frá 12 mánuðum verður væntanlega um 5 milljarðar, (Forseti hringir.) þar af hugsanlega 3–4 milljarðar bara á (Forseti hringir.) höfuðborgarsvæðinu.