144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:35]
Horfa

Elín Hirst (S):

Ég þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir hennar orð og það að menn séu að skoða í fullri alvöru hvernig við mætum þeim vanda að þjóðin okkar er að verða eldri. Það er á ábyrgð okkar sem hér stöndum og sitjum nú að byrja að vinna að þessu máli þannig að þetta skelli ekki yfir okkur í einni holskeflu allt í einu. Við verðum að vinna að þessum málum strax og gera það jafnt og þétt. Þannig að ég fagna því að heyra viðbrögð velferðarráðherra varðandi þetta mál.

Annað sem hún nefndi hér er þetta með að nýta tæknina til þess að gera velferðina meiri í landinu. Ég er svo sannarlega stuðningsmaður þess og vil gjarnan að við leggjum ríka áherslu á það, bæði í heilbrigðiskerfinu og velferðarkerfinu, að við nýtum tæknina í ystu æsar til þess að gera lífið léttara fyrir þá sem eiga undir högg að sækja. Ég held að þar séu gríðarleg sóknarfæri. Ég mundi vilja óska þess mjög gjarnan að við mundum leggja í sérstaklega góða vinnu á þeim vígstöðvum á næstu mánuðum og árum.