144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:11]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hæstv. innanríkisráðherra og um leið fagna þessum lið í þinghaldinu, hvernig við förum hér í gegnum einstaka málaflokka. Mér finnst það til mikillar eftirbreytni, og skemmtileg umræða á sér stað. En ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst einhvern veginn sú áætlun sem hér er lögð fram í fjárlögum til samgöngumála, þá einkanlega vegamála, ein sú metnaðarminnsta sem komið hefur fram hin síðari ár.

Samgönguáætlun sem lögð var fram á síðasta ári var ekki samþykkt og síðan kemur fjárlagafrumvarpið þar sem gert er ráð fyrir mjög miklum niðurskurði. Hæstv. ráðherra nefndi töluna 2 milljarða. Mér sýnist hún vera aðeins hærri en það, allt að 2,5 milljarðar sem eru eingöngu til vegamála.

Það heyrir líka til undantekninga, en gerist nú í annað skipti og það í tíð þessarar ríkisstjórnar, að af Vegagerðinni er tekin um 871 millj. kr. af mörkuðum tekjustofnum til að fara í endurgreiðslur á fyrir fram veittum mörkuðum tekjum fyrri ára. Í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem sat á erfiðleikaárum Íslands eftir hrun þar sem ekki var til mikið fé datt mönnum aldrei í hug að fara þessa leið. Það er því brotið í blað en því miður í annað skipti.

Auk þess eru hér skorin niður ýmisleg fleiri framlög sem þýða ákveðna stefnumörkun. Spurning mín til hæstv. innanríkisráðherra er um þessa metnaðarlausu áætlun sem hérna kemur fram. Nú höfum við heyrt, eins og hefur komið fram hjá nokkrum þingmönnum Framsóknarflokksins, meira að segja forsætisráðherra, að menn segja sig eiginlega frá þessum fjárlögum. Þetta er algjörlega nýtt. Fær þingið miklu meira umboð til að breyta fjárlögum? Geta nefndir bætt hér við því sem vantar í vegamál eða önnur verkefni sem hér eru skorin niður?

Í þessari fyrri ræðu minni til hæstv. ráðherra spyr ég út í þetta atriði, sem er stærsta atriðið. Vegna þess að ég geri ráð fyrir að hún hafi tíma til að svara því nefni ég að hér er líka skorið niður, miðað við samgönguáætlun, framlag til innanlandsflugs, í ríkisstyrkt flug til nokkurra staða á landinu. Í fjárlögum er sagt að það verði boðið út árið 2014. Það útboð hefur ekki átt sér stað. En það sem er alvarlegast er að peningar eru skornir niður og þá spyr ég hæstv. ráðherra: Er áætlað að hætta við einhverjar leiðir? Eru menn kannski að búa sig undir að hætta þessu ríkisstyrkta flugi til nokkurra staða á landinu eins og verið hefur undanfarin ár? Ég geri ráð fyrir að ef það verður boðið út komi hærri tilboð vegna þess að flugaðilar eru að vinna hér á töluvert (Forseti hringir.) gömlum útboðum sem ekki hafa fengið eðlilegar hækkanir miðað við það sem hefur verið að gerast í þessum bransa.