144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:19]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Nú er það ekki svo að ekki sé víðtæk samstaða um það innan ríkisstjórnarinnar, líkt og ég held að sé á hinu háa Alþingi almennt, að samgöngur og framkvæmdir í samgöngumannvirkjum og uppbygging vega og viðhald séu mikilvæg verkefni. Ég held að það sé alveg fullkomin sátt um það og líka meðal þeirra ráðherra sem nefndir voru hér áðan, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, sem hafa mikinn skilning á málinu. Hins vegar er enn verið að hagræða og spara, við erum enn þá stödd á þeim stað. Miklir fjármunir fara á hverju ári, eins og fyrrverandi hæstv. samgönguráðherra þekkir vel, til þessara þátta. Ég ítreka að við erum að þessu sinni, eins og hefur verið undanfarin ár, að taka við minna fjármagni en sannarlega væri hægt að nýta.

Ég minni hins vegar á það sem við höfum oft rætt hér og ég held að við hv. þingmaður getum verið sammála um þó að um það sé kannski ekki full samstaða meðal alla flokka, að ég hef viljað, og tel að það skipti máli, að Alþingi reyndi að ná samstöðu um að fara í ákveðin samgönguverkefni í samstarfi við þá sem hafa áhuga á að fjárfesta í slíku. Að slíkum verkefnum var unnið í tíð þess sem hér talaði áðan, hv. þingmanns, og ég vil halda því áfram. Ég tel að það geti verið ákveðin innspýting í samgöngumál sem skiptir miklu máli.

Ég árétta það líka, af því að hann nefndi Landeyjahöfn og framkvæmdir vegna ferju, að það fjármagn sem inn fór síðast í þau verkefni var tímabundin innspýting. Það var ekki viðvarandi fjármagn. Það er vegna þess að við vorum að gera ákveðnar breytingar á höfninni og síðan vegna þess að við fórum í útboð vegna hönnunar á ferjunni sem nú er komið í fullan gang. Það eru engar breytingar fyrirhugaðar á þeirri áætlun sem til staðar var varðandi samgöngukosti við Eyjar. Við erum öll mjög meðvituð um mikilvægi þess þannig að við höldum alveg áfram með það verkefni.

Ég ítreka að ég vona að Alþingi nái samstöðu um það í framtíðinni og okkur takist þrátt fyrir þetta að halda þá samgönguáætlun þó að það ýtist á undan okkur með einhverjum hætti. En ég hvet okkur líka til að (Forseti hringir.) hugsa út fyrir boxið í þessu verkefni og velta fyrir okkur hvernig við getum styrkt byggðir landsins og samgöngur með því að horfa til annars (Forseti hringir.) konar fjármögnunar en einungis þeirrar opinberu.