144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:29]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Hér á undan mér talaði fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra af mikilli reynslu um hvernig samskipti hæstv. fjármálaráðherra eru við hæstv. aðra fagráðherra.

Ég er auðvitað hluti af ríkisstjórn og stend að þessu fjárlagafrumvarpi að sjálfsögðu. (Gripið fram í.)Að sjálfsögðu geri ég það. Og eins og ég sagði áðan er aukning á fjármagni frá því á síðasta ári. Ég þarf ekkert að endurtaka það, ég er búin að segja það margsinnis í þessum sal að ég mundi vilja sjá það að við gætum hafið fyrr uppbyggingu samgöngumannvirkja en okkur hefur tekist á undanförnum árum. Það voru engin tíðindi og ég ligg ekkert á því hvorum megin við borðið sem ég sit.

Ég hef ekki sama skilning og fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra á hvernig nálgast skuli verkefnin. Ég lít ekki svo á. Ég lít svo á að ég sé aðili að ríkisstjórn og auðvitað hef ég tekið slag fyrir mína málaflokka og það gerum við öll. En mestu skiptir þó að okkur takist verkefnið sameiginlega og við náum að skila hallalausum fjárlögum og síðan getur þingið unnið úr því ef menn telja ástæðu til að vinna með öflugri hætti að þessari forgangsröðun.

Varðandi umræðuna um Vestmannaeyjaferjuna skil ég ekki alveg málflutning hv. þingmanns. Hann talar um að honum líði eins og hann sé kominn langt aftur í tímann. Það er byrjað að hanna nýja ferju. Það var gert á síðasta ári og er búið að ganga til samninga um það mál. Þannig að ég veit ekki alveg inn í hvaða veruleika hv. þingmaður er að tala. (Gripið fram í.) Já, hann segist vera að vísa í texta, hárrétt, hann er að vísa í texta, en það er staðreyndin að hönnun er hafin.

Það breytir engu um það, og það hefur meira að segja verið gert á undanförnu ári, að boðið hefur verið upp á viðbótarþjónustu er tengist siglingu til Eyja, sem hefur þótt skipta miklu máli. Menn hafa verið reiðubúnir að ræða það og hv. þingmaður þekkir það jafn vel og ég að Vestmannaeyingar og aðrir hafa rætt ákveðna kosti í því, hvernig þeir telji að betur sé hægt að vinna með málið. Það hefur til dæmis skipt miklu máli nú í sumar að það hefur ekki einungis verið ein ferja sem hefur siglt á milli o.s.frv. Ég er ekkert að blanda mér í þá umræðu, ég er einungis að segja það og ítreka það: Það er engin stefnubreyting á ferðinni. Það er verið að hanna ferju með það að markmiði að smíða ferju. (SJS: Hugsanlega.) Það er ekki verið að …

Virðulegur forseti. Ég ætlast nú til þess að ég fái að klára mál mitt ef það væri í lagi. Það hefur ekki verið nein „hugsanleg smíði“, hún er hafin, hv. þingmaður. Hönnun á ferjunni, það er alveg sama hversu oft hv. þingmaður (Forseti hringir.) hlær að því, er hafin. Og við það verður að sjálfsögðu staðið eins og talað hefur verið um, og það þarf ekkert afturhvarf til (Forseti hringir.) fortíðar í því. Það sem er að gerast er að við erum að ná að vinna verkefnið, við ræðum áfram hvort einhverja viðbótarþætti þurfi að tengja því, (Forseti hringir.) en hönnun á ferjunni er hafin og það hefði ég haldið að hv. þingmaður hefði verið upplýstur um. (Gripið fram í.)