144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:36]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnirnar. Fyrst um almenningssamgöngur og afstöðu mína til þeirra, ég styð þær. Til að segja það alveg eins og það er var það verkefni sem var tekið upp af fyrrverandi ríkisstjórn þar sem ákveðið var að ganga til samninga við sveitarfélögin um ákveðinn stuðning við almenningssamgöngur vegna þess að ekki var hægt að koma til móts við sveitarfélögin og samfélögin vegna ákveðinnar uppbyggingar í vegamálum. Ég hafði á sínum tíma ákveðnar hugmyndir og kannski má segja ákveðnar efasemdir um það, en eftir að ég lagðist yfir þetta verkefni eftir að ég kom inn í ráðuneytið og sá hversu miklu máli það skiptir fyrir ýmis sveitarfélög og hvernig það getur komið í veg fyrir það að við þyngjum vegakerfið of mikið, er ég sannfærð um að það sé fín ákvörðun og rétt ákvörðun og við eigum að halda áfram með hana.

Það er hins vegar alveg rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að hér er nokkur lækkun á því, en það er vegna þess að gerð er almenn hagræðingarkrafa. Mestu skiptir að haldið er áfram með verkefnið og mestu skiptir að við þurfum að ræða betur við sveitarfélögin um skiptingu þessa fjármagns. Það hefur að mínu mati ekki náð í fyrstu atrennu að skila nákvæmlega því sem það á að skila. Við erum í þeirri vinnu og munum halda henni áfram á þingi Sambands íslenskra sveitarfélaga á Akureyri síðar í mánuðinum þar sem við munum gefa okkur góðan tíma í að fara vel yfir málin.

Það er líka rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns um öryggi vega og viðhald. Ég hef nefnt það mjög oft hér á þingi að ég hef af því áhyggjur hvernig staða ýmissa samgöngumannvirkja er orðin hér á landi og hef áhyggjur af því að margir vegir eru ekki í nægilega góðu standi. Það á jafnt um þá vegi sem nýttir eru dags daglega út um allt land en líka þá vegi sem við ætlumst til að ferðamenn noti. Þess vegna tel ég mikilvægt að þetta viðbótarfjármagn sem gæti farið í nýframkvæmdir fari frekar í öryggi og viðhald til að tryggt sé að við náum að vinna sem best úr því. Svo ber framtíðin vonandi það í skauti sér að okkur takist að gera enn betur.