144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:40]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir það sem hv. þingmaður sagði og finnst hún nálgast málið mjög málefnalega sem ég held að skipti máli. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að við getum náð góðri samstöðu hér á þingi um ákveðin grundvallarprinsipp í samgöngum. Landið okkar er stórt og víðfemt og krefst þess að samgöngur séu í ákveðinni stöðu. Ég held að við getum, ef við brjótum niður ákveðna múra, náð samstöðu sem skilar okkur árangri.

Það sem hér er sagt um öryggi vega er hárrétt en við skulum líka muna það að við höfum á undanförnum árum sem samfélag náð miklum árangri í umferðaröryggismálum, í málum sem lúta að öryggi vega og að tryggja það að umferð um vegi okkar sé eins örugg og mögulegt er. Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi það að fáar þjóðir ef nokkrar hafa náð jafn góðum árangri og við í þessu. Ég sat nýlega fund evrópskra samgönguráðherra um þessi mál þar sem fram kom mjög afdráttarlaus og góður árangur okkar í þessu máli. Þar eiga auðvitað mjög margir þakkir skildar, ekki bara Alþingi og sveitarstjórnir, heldur líka frjáls félagasamtök sem hafa lagt mikla áherslu á þessi mál og náð fram ákveðinni viðhorfsbreytingu og tryggt það að verkefnin séu unnin með dálítið óhefðbundnum hætti. Við höfum náð miklum árangri í umferðaröryggismálum. Auðvitað skiptir þar máli að ástand vega sé gott og ég held við megum ekki gleyma því í allri þessari umræðu að við höfum náð þar árangri.

Ég ítreka það sem ég hef áður sagt: Ég held að almenningssamgöngur séu eitthvað sem við þurfum að huga betur að og vera óhræddari við að nálgast og viðurkenna að sé hluti af samgöngumálum okkar. Mér finnst sveitarfélögin sinna þeim af miklum metnaði, þau skynja hversu mikilvægt mál það er fyrir fólkið sem býr í þessum samfélögum um allt land.

Svo ítreka ég það sem ég hef áður sagt að ég vona að það renni upp sá dagur á þingi að við stöndum hér upp og segjum: Loksins, loksins hefur okkur tekist að gera ljómandi vel í samgöngumálum.