144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:44]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Varðandi netöryggismálin er auðvitað fyrirhugað og það kemur fram á þingmálaskrá — á síðasta þingi var flutt frumvarp til breytinga sem laut að því að netöryggismálin færu undir ríkislögreglustjóra frá Póst- og fjarskiptastofnun. Það eru enn áform um það, það þingmál verður endurvakið hér og það frumvarp endurflutt. Ég vona að það nái fram að ganga. Það felur í sér að þetta verkefni fari frá Póst- og fjarskiptastofnun yfir til ríkislögreglustjóra þrátt fyrir að þeir sérfræðingar sem hafa unnið að því á vettvangi Póst- og fjarskiptastofnunar flytjist með verkefnunum. Hugmyndin er einmitt eins og hv. þingmaður kom inn á, að efla þá þætti og tryggja að við séum betur búin undir þennan nútíma.

Varðandi það sem nefnt var um jöfnunarsjóðinn, fjarskiptin o.s.frv. kom það fram í ræðu minni, og ég get ítrekað það, að núna er verið að endurskoða gildandi fjarskiptaáætlun. Eins og ég sagði áðan verður hún lögð fram í febrúar á næsta ári samhliða nýrri samgönguáætlun. Svo er starfshópurinn sem ég nefndi áðan að fara yfir þessi fjarskipti.

Auðvitað er það hárrétt að það samrýmist í raun og veru ekki alveg þegar við ræðum hér mikið um eflingu internetsins, við ræðum um alls konar þjónustu er tengist auknum fjarskiptum, við ræðum um fjarþjónustu á ýmsum sviðum, en við bjóðum ekki almennilega upp á fjarskipti alls staðar í landinu. Það er vandamálið og viðfangsefnið.

Ég held, hv. þingmaður, að ef við ætlum að gera átak í þessu þurfum við ekki bara þá sjóði sem eru til staðar, heldur þurfum við að átta okkur á því að við þurfum að reyna að vinna verkefnið hugsanlega í samstarfi við þá aðila sem eru á þessum markaði hér og nú. Ef við ætlum að ná því markmiði að tryggja að Ísland sé vel nettengt og búið undir þennan veruleika verða fjarskiptin að batna, þá verður að vera tryggt að við getum notað þessi tæki alls staðar á landinu og á vegum landsins. Það er því miður ekki þannig í dag.