144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:02]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir umræðuna hingað til og er hér með nokkrar spurningar sem undir hennar embætti heyra. Einhverjar af þeim eru þannig að á þær hefur verið drepið áður í umræðunni, en mig langar engu að síður að halda þeim til haga.

Það er kannski í fyrsta lagi það sem varðar Útlendingastofnun og hælisleitendamálin, vegna þess að öllum er jú ljóst sem hafa fylgst með pólitískri umræðu hér undanfarin missiri og undanfarin ár að þetta er sífellt þyngri málaflokkur, málaflokkur útlendingamála og hælisleitenda. Mikil vinna hefur verið unnin í því að styrkja löggjöf á þessu sviði og mikilvæg vinna stendur yfir núna á vettvangi nýrrar og þverpólitískrar þingmannanefndar sem starfaði í vetur sem leið og er að störfum.

Miðað við allt það sem þar liggur fyrir og ekki síður á grundvelli þeirra breytinga sem þegar hafa orðið á útlendingalöggjöfinni er ljóst að það þarf frekar að gefa í í þessum málaflokki en hitt. Það er frekar þannig að það hafi verið skortur á fjármagni og starfsfólki til þess að standa undir þeim verkefnum sem eru vaxandi, sífellt fleiri leita hingað til landsins o.s.frv. Þess vegna vekur það áhyggjur að um er að ræða lækkun á rekstrargjöldum til bæði Útlendingastofnunar og hælisleitenda. Við vorum að ræða einhverjar millifærslur þarna á milli að því er varðar hælisleitendaliðinn. Án þess að ég fari ofan í það í smáatriðum mundi ég vilja heyra almenna sýn hæstv. ráðherra á þessum málaflokki sem heild. Þarna þarf að taka myndarlega til hendinni af svo ótal mörgum ástæðum.

Mig langar síðan að spyrja hæstv. ráðherra um fangelsismálin. Hv. þm. Jón Þór Ólafsson talaði hér aðeins um þau mál. Hann vék að sálfræðiþjónustu og öðru slíku. Grundvallarþátturinn er menntunar- og atvinnumál fanga, þ.e. möguleiki fanga til aðlögunar á samfélaginu. Betrunarsýn á fangelsisvistina og aðlögun þeirra að samfélaginu eftir afplánun er í raun og veru grundvallarhlutverk samfélagsins þegar þessi hópur er annars vegar. Þess vegna hef ég áhyggjur af því að ég sé þess ekki stað beinlínis í fjárlagafrumvarpinu eins og það lítur út, en það er nú svo sem ekki ítarlega sundurliðað hér. Ég mundi vilja heyra í hæstv. ráðherra hvað þetta varðar og kem væntanlega seinni spurningu minni að í síðara andsvari.