144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:07]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin svo langt sem þau náðu í þessari umferð. Mig langar kannski að spyrja í kjölfarið á þeim viðbrögðum. Í fyrsta lagi vil ég brýna hana og okkur öll sem hér erum á þingi í því að standa vel vaktina að því er varðar útlendingamál, þann mikla og vaxandi málaflokk. Ég vænti þess að við getum með þverpólitískri nálgun rökstutt mögulegar breytingar á fjárlagafrumvarpinu á milli 1. og 2. umr. í þágu þess málaflokks. Ég tel a.m.k. afar brýnt þegar við erum að styrkja löggjöfina að við finnum að vilji þingsins blási okkur vind í seglin hvað þetta varðar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra varðandi málefni fanga um stefnumörkunina í þeim málaflokki. Ég er alveg sammála að þar er verið að gera gríðarlega góða hluti við að mörgu leyti krappan kost, en við þurfum að geta gert miklu betur og að mörgu leyti að færa málaflokkinn meira til nútímans. Mig langar að spyrja um það hvernig þeirri stefnumörkun er háttað eða hvort hún sé í farvegi eða hvort ráðherrann sjái fyrir sér einhver tíðindi í þessum málaflokki sérstaklega.

Síðan langar mig að spyrja ráðherrann að því er kemur fram hér í kaflanum um Fangelsismálastofnun, að fellt er niður tímabundið framlag sem var 10 milljónir til að tryggja skilvirk úrræði þolenda kynferðisbrota sem er nú svona lína sem er í fleiri köflum hér framar sem heyrir undir ráðherra dómsmála. Það sem ég spurði hann um og mundi nú vilja spyrja hæstv. ráðherra er um röksemdirnar og greininguna sem liggja að baki því að fella niður þessi tímabundnu framlög núna vegna þess að það er alveg ljóst, held ég, að þessi málaflokkur er hvergi nærri kominn í höfn, eins og má að orði komast, og mín tilfinning er sú að (Forseti hringir.) hann þurfi ennþá á verulegum stuðningi að halda.