144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:20]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir fjárlagatillögum þeirra málaflokka sem ég sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ber ábyrgð á. Í heildina litið eru útgjöld til þeirra í kringum 20,8 milljarðar. Þar inni er rekstrarkostnaður alls atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, 781 milljón. Í þessum málaflokkum var lögð til 1,3% hagræðingarkrafa eins og annars staðar í ríkisrekstrinum.

Ég vil byrja á því að gera grein fyrir málefnum tengdum áformum um að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu norður á Akureyri. Það mun kosta fjármuni sem ekki er gert grein fyrir í fjárlagafrumvarpinu á þessari stundu. Gert er ráð fyrir að áætlun um kostnað, nákvæman kostnað, liggi fyrst fyrir um miðjan október sem þá þarf að taka til sérstakrar umfjöllunar. Verði það samþykkt eru tækifæri til að færa fjármuni á milli verkefni til móts við hluta af kostnaðartengdum flutningum en jafnframt er væntanlega aukafjárveitingarþörf þar á.

Þá er rétt að nýta þetta tækifæri til að árétta að áformin um flutninginn falla undir byggðamál og eru í fullu samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fjölgun atvinnutækifæra á vinnusóknarsvæðum á landsbyggðinni og frekari dreifingu opinberra starfa.

Það má öllum vera ljóst að lengra verður ekki gengið í hagræðingarkröfu gagnvart Hafrannsóknastofnun. Það er mikilvægt að standa vörð um grunnrannsóknir sem eru hornsteinninn í allri veiðiráðgjöf. Það getur orðið mjög dýrt að sleppa mikilvægum rannsóknum. Í því felst að veiðum úr fleiri stofnun er stýrt á grundvelli varúðarsjónarmiða og þeir jafnvel ekki nýttir á sjálfbæran hátt í víðasta skilningi þess orðs. Þær rannsóknir sem sumar hafa verið skornar niður geta verið á litlum stofnum sem í samhengi heildarinnar fáir stunda veiðar á, en að sama skapi geta þær veiðar verið tilteknum landshlutum mjög mikilvægar með tilliti til atvinnu við veiðar og vinnslu.

Nokkuð er aukið við í fjárlögunum til hafrannsókna, um 250 milljónum, einkum til að tryggja verkefni sem stofnuninni hafa á undanförnum árum verið falin án þess að fjármagn hafi fylgt. Ég treysti því að þingið standi vörð um það fjármagn og horfi jafnframt til þess hvernig stuðla megi að frekari rannsóknum.

Ísland hefur verið leiðandi í þróun fjareftirlitskerfa fiskiskipa í alþjóðasamstarfi en er óðum að tapa forustunni vegna aðhaldskrafna og það fé sem hefur verið notað til reksturs og framþróunar á kerfunum hefur ekki verið tryggt undanfarin ár. Ég legg áherslu á að svo verði gert nú með 30 millj. kr. framlagi.

Til samræmis við stefnu ríkisstjórnarinnar um að auka fé til rannsókna og nýsköpunar er bætt við fjármagn til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins eða um 17 milljónum. Vel þarf að halda utan um málefni byggða landsins og við þurfum að standa saman í þeim efnum. Það er ljóst að þróun sem leiðir til aukinnar hagkvæmni í sjávarútvegi til að mynda, eins og t.d. í tækni, styrkir tiltekin vinnusóknarsvæði á meðan önnur veikjast. Atvinnutækifæri breytast og við þurfum að bregðast við og byggja upp innviði í samræmi við þá þróun. Brothættar byggðir eru nú verðugt komnar með fastan ramma í fjárlögum, 50 milljónum er ráðstafað til hafnarframkvæmda á Bíldudal þar fyrir utan til að styðja við uppbyggingu í fiskeldi á svæðinu.

Það er ljóst að sóknaráætlanir landshluta þarf að styrkja mun frekar ef vel á að vera en sá liður fellur undir fjármálaráðherra. Þar virðast hafa átt sér stað mistök sem ég vænti að þingið muni leysa úr og leiðrétta en þar vantar um 85 milljónir til þess að þær séu með sama hætti og voru í fyrra og var fyrirhugað að yrði á þessu ári.