144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:24]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því að hæstv. atvinnuvegaráðherra talaði um að einhver mistök hefðu átt sér stað varðandi sóknaráætlanirnar. Það kviknaði vonarneisti hjá mér við að heyra það því að það var sannarlega áfall að sjá í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi að einungis væri gert ráð fyrir 15 millj. kr. til sóknaráætlananna sem höfðu fyrir ári síðan átt að fá 400 millj. kr., sem var fellt niður og breytt í 100 milljónir. Samkvæmt þessu fjárlagafrumvarpi er einungis um að ræða 15 millj. kr. og talar ráðherrann um að þarna hafi mistök átt sér stað og að málið sé komið undir forsætisráðuneytið. Mig langar að inna ráðherrann frekar eftir því hvaða fyrirkomulag ríkisstjórnin og hann sem atvinnuvegaráðherra sjái fyrir sér að geti orðið á framkvæmd og framhaldi sóknaráætlananna í ljósi þessarar miklu fjárskerðingar sem þær áætlanir hafa orðið fyrir frá því sem upphaflega var áætlað og hvernig menn sjái þá fyrir sér að þeim 100 milljónum, sem ráðherrann hefur góð orð um að geti komið inn núna, verði varið í sambandi við þá vinnu, því að það skiptir auðvitað máli þegar fjárhagsáætlanir breytast svo mjög frá því sem upphaflega var áætlað.

Síðan tek ég líka eftir því í frumvarpinu að fellt hefur verið niður 50 millj. kr. framlag til sértækra aðgerða í fámennum byggðarlögum sem búa við bráðan vanda vegna fólksfækkunar, einhæfs atvinnulífs og hækkandi meðalaldurs íbúa. Það kemur hins vegar ekki fram hvort þeir fjármunir hafi verið færðir undir einhvern annan lið eða hvort þetta sé einfaldlega fellt niður og mér þætti vænt um að fá nánari skýringar hjá ráðherranum varðandi það. Hafi þetta verið fellt niður, hvernig stendur á því? Telur þá ráðherrann að ekki sé þörf á þeim aðgerðum sem þessir fjármunir áttu upphaflega að fara til? Ég hefði nú satt að segja haldið að þarna hefði þurft að láta allverulega meiri fjármuni renna til jafn viðamikils verkefnis eins og þess að gera raunhæfar áætlanir um vörn fyrir veikustu byggðarlögin í landinu.