144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:27]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur þessar fyrirspurnir. Þegar ég talaði um mistök í sambandi við sóknar- eða landshlutaáætlanirnar held ég að ein af ástæðum þeirra sé að þegar fjárlögin koma svona snemma fram vinnst ekki alltaf tími til að yfirfara alla hluti. Það var hugmyndin, eins og var í fyrra, að 100 milljónir yrðu settar í sóknaráætlanirnar og það yrði gert áfram og ég vænti þess að þingið leiðrétti það.

Það er rétt að á árinu voru áætlaðar 400 milljónir í þetta en ríkisstjórnin, til þess skera niður hallann sem stefndi í árið 2013, tók sig til og lagaði verulega til þær áætlanir sem fyrrverandi ríkisstjórn var með með þeim árangri að 2013 mun koma miklu betur út en til stóð.

Varðandi 50 milljónirnar sértæku til brothættra byggða voru þær settar tímabundið inn í Byggðastofnun. Þar eru þær felldar út en settar inn sem sérstakt verkefni, eins og stendur í Byggðaáætlun og eru þar með, eins og ég sagði í inngangsorðum mínum, verðugt verkefni sem er þá komið með sinn sess í fjármálunum. Þeir fjármunir eru því tryggðir og til að upplýsa þingheim, þar sem ég heyrt að menn telji að þetta hafi farið einhvern veginn burtu, er þetta á bls. 337 í frumvarpinu þar sem fjallað er um í Byggðaáætlun 50 millj. kr. framlag vegna sértækra aðgerða á varnarsvæðum er snúa að brothættum byggðum í tengslum við framkvæmd byggðaáætlunar. En á sama hátt eru 50 milljónirnar felldar út hjá Byggðastofnun því að þar voru þær settar inn tímabundið í fyrra. Þetta skýrir það vonandi algjörlega og ég tek undir að það er mjög mikilvægt. Varðandi fyrirkomulagið hjá landshlutaáætlunum og öðrum þeim verður það fyrirkomulag sem við hefur verið haft hingað til, þ.e. stýrinet ráðuneytisins og samstarf við sveitarfélögin. Fjármunirnir fara í gegnum ríkið og til landshlutanna þar sem þeir sjálfir ákveða hvernig skynsamlegast er að nýta landshlutaáætlanaféð, vaxtarsamningana og aðra þá samninga sem við erum þá komin með á einn stað.