144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:32]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Aðeins fyrst varðandi sóknaráætlanirnar, landshlutaáætlanirnar, ég býst við að það hafi bara verið mismæli, en þær heyra undir fjármálaráðherra. Peningarnir koma þaðan, fara til byggðamálaráðherra sem safnar þeim saman til að búa til einn kanal til samstarfsins við landshlutana.

Það er algjörlega tryggt að þær 50 milljónir sem lagt er til að veita í brothættar byggðir fara í brothættar byggðir. Það sem hv. þingmaður las áfram um landbúnaðarsvæði er meðal annars vegna þess að það eru fleiri brothættar byggðir en sjávarbyggðir, það eru líka landbúnaðarbyggðir, t.d. Skaftárhreppur, svo dæmi sé tekið, sem er nú þegar kominn inn í verkefnið Brothættar byggðir, og þá þarf einmitt að fara í gegnum þennan landbúnaðarvinkil til þess að greina það til að styrkja undirstöðu þessara byggða sem eru sannarlega brothættar byggðir. Ég er sammála þingmanninum um að við þurfum sannarlega að hafa áhyggjur af stöðu landsbyggðarinnar og sérstaklega þeirra svæða sem hafa gefið hvað harðast eftir.

Við megum hins vegar ekki fara fram og lofa fjármagni sem ekki er til. Við verðum að standa á því að gera það með uppbyggilegum hætti og skynsamlega og ég tel að við séum að gera það hér. Ég tel vissulega að hægt sé að gera betur og hef varpað þeirri hugmynd fram, bæði úr þessum ræðustól og annars staðar, að það sé eðlilegt að hluti af veiðigjöldunum til að mynda í sjávarútvegi renni með einum eða öðrum hætti til landsbyggðarinnar, þar sem auðlindin er, og það sé eitt af þeim verkefnum sem mundi þá styrkja til dæmis landshlutaáætlanirnar og sjávarbyggðirnar með beinum hætti. Ég tel að það sé eitthvað sem þingið þurfi að velta fyrir sér hér í vetur.