144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:44]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Mig langar að halda áfram umræðunni sem hér var næst á undan um Framleiðnisjóð landbúnaðarins og hlutverk hans. Ég vil inna hæstv. landbúnaðarráðherra eftir því hvort farið hafi verið lögformlega yfir það hvort ganga mætti á þennan samning, því að vissulega eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rakti áðan er þetta samningur sem gerður er á milli tveggja aðila og gengið frá honum lögformlega.

Annað sem ég vildi spyrja ráðherra um þessu tengt er að nú eru uppi mikil áform um eflingu sjóða, samkeppnissjóða um rannsóknir. Ég vil ítreka að margar af þeim rannsóknum sem unnar er í landbúnaði eru langtímarannsóknir og passa mjög illa við samkeppnissjóðina. Ég vil spyrja hvort ekki hafi komið til tals að efla Framleiðnisjóð samhliða þessari eflingu annarra samkeppnissjóða, þó svo að ég taki algjörlega undir það sjónarmið sem hæstv. landbúnaðarráðherra fór yfir að þessi faggrein ætti að sækja í þá sjóði líka. Þetta var fyrri hlutinn af því sem ég vildi spyrja ráðherrann um.

Hinn hlutinn snýr að Matvælastofnun og þá sérstaklega fjármunum sem tengdir eru sauðfjárveikivörnum, varnarlínum. Nú þekki ég til þess að gert hefur verið sérstakt samkomulag við Matvælastofnun um viðhald, endurnýjun og hreinsun á gömlum girðingum og bændur lögðu þar til fjármuni. Síðan bregður svo við í sumar að ekki er staðið við það samkomulag, að því er ég best veit. Nú má vera að það hafi breyst og ráðherra leiðréttir mig þá bara í þeim efnum. En það sem ég vildi rýna í er þessi stóra upphæð sem fer til Matvælastofnunar. Hún er svolítið mikið í einni púllíu og gamli fjárlagaliðurinn um varnarlínur er felldur brott. Mætti rökstyðja betur eða styrkja í greinargerðinni um Matvælastofnun að veita meiri fjármuni til þessa verkefnis? Það er ákaflega brýnt að við stöndum vörð um það. Við tökum vonandi einhvern tíma sjálfstæða umræðu um það hvernig Matvælastofnun hefur þróast og þau fjölmörgu verkefni sem þangað hafa runnið inn og einhvern veginn týnst þar. Í þeirri viðleitni að ná utan um öll þau umfangsmiklu verkefni sem þessari stofnun eru falin vil ég meina að mörg þessara litlu verkefna, sem eru samt svo mikilvæg, hafi týnst.