144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:50]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Aðeins áfram um fjárlögin og greinargerðina sem þeim fylgir og áhersluna sem við leggjum þar. Ég vil segja í ljósi þessara orða ráðherrans að ég held að það sé óhjákvæmilegt vegna þess hve brýnt það er að viðhalda varnarlínum að við tilgreinum það verkefni sérstaklega. Við sendum þá skýr skilaboð til Matvælastofnunar um áherslur í þessum málum. Ég tek undir sjónarmið ráðherra varðandi hreinsun á gömlum girðingum. Þó tel ég ekki síður mikilvægt að viðhalda þeim sem fyrir eru og eiga að verja hrein búfjársvæði fyrir búfjársjúkdómum, svæði sem okkur hefur hingað til tekist að verja.

Ég vil nefna annað verkefni sem er á hendi hæstv. ráðherra en það eru rannsóknir í þágu landbúnaðarins og sérstakur samningur er gerður við Landbúnaðarháskóla Íslands sem hefur að stofni til verið hinar gömlu fjárveitingar til Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins sem urðu eftir í landbúnaðarráðuneytinu við tilflutning skólans til menntamálaráðuneytis. Þar má sjá áherslu fagráðuneytisins um áherslur í landbúnaðarrannsóknum.

Ég vil við þessa umræðu segja, vegna þess að við erum að efla aðra samkeppnissjóði, að það er mjög mikilvægt að við gefum eilítið í í grundvallarlandbúnaðarrannsóknum, praktískum landbúnaðarrannsóknum eins og þær eru stundum kallaðar. Án þess að ég ætlist til þess að ráðherrann bregðist við því sérstaklega þá eru þessar rannsóknir hluti af því að við getum viðhaldið samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar, en hún hefur nú m.a. komið til tals vegna breytinga á virðisaukaskatti og það er önnur umræða. Við þurfum á því að halda, ekki bara vegna Landbúnaðarháskóla Íslands og framtíðar hans, heldur vegna landbúnaðarins að til séu fjármunir til grundvallarrannsókna í landbúnaði. Eins og ég sagði áðan henta þær ekki endilega alltaf samkeppnissjóðum þar sem horft er til mjög afmarkaðra verkefna og stutts tíma.