144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:12]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að taka hér upp mál við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, en það er flutningur Fiskistofu til Akureyrar.

Hann kom inn á það í upphafi ræðu sinnar að búast mætti við því að þetta yrði lagt fyrir þingið varðandi heimild til fjárframlaga við flutning á Fiskistofu til Akureyrar. Ég vil spyrja hann hvort fyrir liggi lögfræðilegt álit á því hvort um sé að ræða lögmætan flutning, hvort það hafi verið kannað, og hvort ráðuneytið hafi greint hver áætlaður kostnaður við flutninginn er og hver áætlaður sparnaður er. Ég spyr þá líka hvort tekið sé tillit til kostnaðar við þá starfslokasamninga og uppsagnarfresti hjá því starfsfólki sem kýs ekki að flytja með stofnuninni norður. Mér finnst þetta vera stórmál.

Þó að ég sé mjög hlynnt uppbyggingu opinberra starfa úti á landsbyggðinni vil ég líka að vel sé staðið að því að fjölga störfum þar, bæði að það sé undirbúið með góðum fyrirvara í samstarfi við viðkomandi stofnun og starfsmenn og litið sé til þess að flytja störfin frekar en að ætlast til þess að fólk sé flutt hálfgerðum hreppaflutningum á milli landshluta sem mér finnst uppleggið í þessu bera keim af.

Ég spyr líka: Ef starfsfólk kýs ekki að stórum hluta að flytja með stofnuninni til Akureyrar er þá gert ráð fyrir kostnaði við að þjálfa upp nýtt starfsfólk?

Varðandi starfsemi Fiskistofu hefur hún útibú víða um land, þar á meðal í Ísafjarðarbæ. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvað verði með áframhald starfseminnar á Ísafirði. Veiðieftirliti þar hefur verið hætt. Þar hefur verið sett á fót starfsstöð fiskeldis. Þar hefur engin starfsemi verið frá áramótum. Hver er meiningin með áframhaldandi starfsemi og þessu eina stöðugildi sem er þar?

Ég vildi byrja á að fá upplýsingar um þetta hjá hæstv. ráðherra.