144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mér finnst þetta ekki vera nógu vönduð vinnubrögð og eiginlega setja svartan blett á það verkefni að fjölga opinberum störfum úti á landsbyggðinni í réttu hlutfalli við skatttekjur af fólki á landsbyggðinni og aðrar viðmiðanir. Þetta er svona eins og að rífa fólk upp með rótum, að tilkynna þetta, og ætla síðan í framhaldinu að fara að vinna með fólki að flutningum. Mér finnst það ekki boða gott um framhaldið ef vinnubrögðin verða með þessum hætti.

Ég fékk til dæmis ekki svör um starfsemina á Ísafirði.

Mig langar að heyra aðeins viðhorf hæstv. ráðherra gagnvart áhyggjum formanns Bændasamtakanna af hækkun á virðisaukaskatti á mat, þó að það komi kannski ekki beint inn á hans málasvið en þetta er hans málaflokkur, hvort það verði til þess að draga úr samkeppni innlendrar framleiðslu við innfluttar vörur. Það kom fram í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að auka ætti innlenda framleiðslu og þetta sé ekki til þess fallið.

Ég vil í lokin heyra álit hæstv. ráðherra á þeim mikla niðurskurði sem er hjá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og einnig á Hólum, hvort hann hafi ekki áhyggjur af þeirri þróun. Það kom fram í máli hans að auka þyrfti rannsóknir og þróunarstarf innan landbúnaðarins, hvort ekki sé einmitt verið að veikja rannsóknir og þróunarstarf mjög mikið með því að draga svona mikið úr starfsemi Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og hvort þetta sé einhver hefndaraðgerð vegna þess að heimamenn og þingmenn kjördæmisins lögðust gegn sameiningu við (Forseti hringir.) Háskóla Íslands.