144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:37]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg viss um að ég skilji hv. þingmann til hlítar þegar hún talar um að það megi ekki vera millibilsástand. Það var einmitt þetta millibilsástand sem við vorum að dekka í sumar og ég er sammála þingmanninum að þar gerði ríkisstjórnin vel. Það var nauðsynlegt að koma inn með verulega aukið fjármagn sem við og gerðum. Staðreyndin var reyndar sú að þrátt fyrir að það væri mjög forgangsraðað og fé sett í verkefni sem áttu að geta klárast var af ýmsum sökum ekki farið í öll þau verkefni. Ekki lá fyrir að deiliskipulag alls staðar eða annað þvældist fyrir. Ákallið um að setja verulega meiri fjármuni til þessa kallar á að við séum búin að undirbúa málið mjög vel. Það tel ég að við séum að gera með því að leggja fram frumvörp í vetur sem snúa að þessum þáttum, annars vegar að innviðauppbyggingunni og framkvæmdaáætluninni og hins vegar að gjaldtökunni og þá munum við strax á næsta ári horfa fram á allt aðra tíma.

Af því hv. þingmaður bar nú um tíma ábyrgð á þessum málaflokki getum við öll farið í þann leik að segja að við hefðum auðvitað átt að gera þetta fyrir löngu síðan, við sáum hvað í var komið. Umræðan er reyndar 20 ára gömul eða jafnvel 50 ára eins og var upplýst hér í sumar og sagt frá því að einhverjir á þingi árið 1960 og eitthvað hefðu komið upp og sagt að það yrði að fara að gera eitthvað og koma með fjármagn, m.a. í gegnum þá sem sæktu okkur heim, til þess að byggja upp náttúruna.

Núna erum við að þessu. Það er að koma, en það var ekki seinna vænna. Það erum við, þessi ríkisstjórn, sem stöndum fyrir þessu. Frumvörpin eru á leiðinni og millibilsástandið dekkuðum við í sumar með þeim hætti sem aldrei hefur verið gert fyrr. (KaJúl: Þið eruð að eyðileggja framkvæmdasjóðinn.)