144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:46]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Varðandi verkefni Náttúrustofu um gróðurkortagerðina er samningurinn útrunninn en er auðvitað í samstarfi við Náttúrufræðistofnun. Eins og ég kom inn á erum við að leggja drög að því að geta lokið fullkominni gróðurkortagerð og vistkortagerð af Íslandi í gegnum verkefnið Náttúra Íslands. Ég vænti þess að Náttúrustofa Vestfjarða leggi þar Náttúrufræðistofnun lið og að menn finni lausn á því að þetta verkefni haldi áfram.

Varðandi hinn þáttinn þá skil ég bara ekki hvert þingmaðurinn er að fara, um þetta verkefni um kolefnisbindingu þar sem við ætlum að nýta bæði Skógræktina og Landgræðsluna. Ég hef kannski talað mjög óskýrt, ég skil ekki hvert þingmaðurinn er að fara. Því hvar eru Skógræktin og Landgræðslan og landshlutaverkefnin til húsa? Þau eru úti á landi alls staðar. Ég sagði að það væri akkúrat í gegnum þessa aðila sem við mundum útfæra verkefnið. En þetta er nýr fjárliður. Það er verið að koma inn með aukinn kraft í skógrækt og landgræðslu á Íslandi til að fara í kolefnisbindingarverkefni. Ég vænti þess að það verkefni stækki á næstu árum og að sjálfsögðu nýtum við fagstofnanir okkar til þess.

Ég skil ekki hvert þingmaðurinn er að fara með því að tala um að þetta sé ný stofnun eða ný leið. Að sjálfsögðu verður leitað til þessara aðila. Við erum að útfæra nýtt verkefni, þess vegna byrjum við smátt en munum væntanlega vaxa verulega vegna þess að þetta er góð leið til að koma til móts við þau álitaefni sem við þurfum að geta staðið við í loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Ef við getum aukið kolefnisbindingu á Íslandi erum við í mjög góðum málum með að standa við þær skuldbindingar sem við höfum sett okkur, annars vegar í þessu en líka í rafbílavæðingu og öðru því sem við gætum nýtt þessa fjármuni til.