144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:53]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ef ég man rétt voru tillögurnar í kringum 50 í græna hagkerfinu, hvort þær voru 47 eða 52 man ég ekki. Til þess að koma þeim í framkvæmd þurfa þær að fara í gegnum ýmis ráðuneyti og ýmsar stofnanir og reyndar fleiri aðila, sveitarfélög og í mörgum tilvikum jafnvel í samstarf við mun fleiri aðila en ríkið. Mörg af þessum verkefnum eru í gangi. Í mörg af þessum verkefnum þarf sérstaka fjárveitingu þar sem það heyrir til. Til að mynda nefndi ég hér í fyrra andsvari nauðsyn þess að við færum að horfa með skýrari hætti á það hvernig við mundum rafbílavæða eða koma vistvænna eldsneyti inn í samgöngurnar okkar. Það er mjög erfitt að standa þau áform, sem meðal annars koma fram í loftslagssamningnum, um að skera verulega úr þar, án þess að við stígum þessi skref. Við höfum hins vegar gríðarleg tækifæri til þess. Þetta var ein af þeim tillögum sem þarna voru og heyra alls ekki undir umhverfisráðuneytið per se eða einhvern sérstakan. Þetta er verkefni sem einhvers staðar þarf að hýsa. Forsætisráðuneytið er auðvitað ágætt til þess. Það verkefni þarf síðan að útfæra með einhverjum hætti. Þar mun umhverfisráðuneytið koma að og vonandi fleiri aðilar. Þar eru tækifæri til að ná þeim árangri að minnka losun gróðurhúsalofttegunda á samgöngum verulega.

Ég minni á að þegar við rafvæddum olíukatlana í fiskverunum á Austurlandi var það ígildi þess að við tækjum 22 þúsund bensínbíla úr umferð. Þannig að við erum sannarlega að gera hér frábæra hluti enda hefur það komið fram í OECD-skýrslunni um umhverfismál á Íslandi að við erum á mjög góðri leið og stöndum mjög framarlega á mörgum sviðum. Þeim sviðum sem við stöndum ekki nægilega framarlega á, óháð græna hagkerfinu eður ei, eru úrgangsmál og fráveitumál. Þar þurfum við að gera betur.