144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:24]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra spyr eðlilega hvort ég hafi ekki með öðrum ráðherrum í ríkisstjórninni borið ábyrgð á því þegar þróunaraðstoðin var skorin niður á þann hátt sem hæstv. ráðherra lýsti árið 2011. Það var alveg hárrétt. Hann spurði hvernig ég gat gert það.

Ég fann til í hjarta mínu. Ég kveinkaði mér í þessum ræðustól og sagði þingheimi að ég skammaðist mín fyrir það. Ég rifjaði upp að íhaldsstjórnin í Bretlandi, sem var í erfiðleikum eins og svo margar, gaf í. Ég sagði: Svona eigum við að gera og svona gerðum við það.

Þegar við síðan jukum þetta 2013, eins og hæstv. ráðherra réttilega rifjaði upp, var það vegna þess að við vorum búin að samþykkja áætlun og Alþingi hafði samþykkt hana. Alþingi hafði farið fram úr þeirri tillögu sem ég lagði fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Ég dreg í efa að það sé rétt og hægt að halda því fram að Íslendingar séu svo illa staddir að þeir geti ekki látið meira af höndum rakna. Hæstv. ráðherra var annarrar skoðunar þegar hann greiddi atkvæði með áætluninni 2012, alveg eins og ég.

Við getum tekið aðra þjóð sem lenti í kröggum og er líka að krafla sig upp, frændur okkar Írar. Þeir eru líka skuldsettir og jafnvel meira en við og þeim hefur kannski ekki að öllu leyti gengið jafn vel og okkur að lækka skuldir ríkisins. Hvernig eru þeir staddir? Jú, þeir voru að samþykkja fjárveitingar til þróunaraðstoðar og þeir segja: Nú förum ekki neðar — þeir hafa líka skorið niður út af kreppunni — nú er botninum náð. Hvar eru þeir? 0,49% af landsframleiðslu. Þetta geta þeir, þjóð sem er ekki eins auðug og við, sem hefur ekki sömu auðlindir og við. Ég held því satt að segja að ekki sé hægt að tala eins og hæstv. ráðherra gerir.

Ég spyr síðan hæstv. ráðherra í framhaldi af því að hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, hefur lýst því hér yfir að það eigi að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun og hún lýsti því yfir að það ætti að skera harkalega niður þróunaraðstoðina. (Forseti hringir.) Hið síðara hefur náð fram og ég spyr hæstv. ráðherra um hið fyrra: Stendur það kannski til?