144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:34]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti Ég hef ekki tíma til að ræða ólíkar skoðanir okkar hæstv. ráðherra á tekjustofnum samfélagsins, en ég tel að sjálfsögðu að ef við hefðum haldið áfram að taka inn þær tekjur og þá tekjustofna sem búið var að koma á laggirnar hefðum við getað framfylgt þeim markmiðum sem komu fram í fjárlögum árið 2013. En um þróunarsamvinnu er hins vegar aldrei hægt að segja að hún sé kosningamál. Það hefur örugglega ekki nokkur maður verið kosinn út á þróunarsamvinnu.

Þróunarsamvinna er mál sem við sjáum til að mynda í nágrannalöndum okkar að allir flokkar hafa sameinast um að vilja standa á bak við og efla. Þetta er ekki eitthvað sem skilar atkvæðum hér eða þar, þetta snýst um skyldu okkar sem samfélags, samfélags sem er hátt á lista yfir ríkustu þjóðir heims, gagnvart fátækari samfélögum. Þetta er líka mikilvægt fyrir heiminn allan því að ef við skoðum til að mynda það sem Sameinuðu þjóðirnar hafa bent á í skýrslum sínum þá er vaxandi ójöfnuður milli ríkra og fátækra ein af stóru ástæðunum fyrir átökum í heiminum og vaxandi átökum í heiminum. Það er fleira fólk núna á flótta vegna átaka í heiminum en hefur verið frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Það er uggvænleg staða fyrir okkur öll.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um það sem hefur komið fram að Atlantshafsbandalagið, hernaðarbandalag sem við Íslendingar erum aðilar að þó að aldrei hafi verið kosið um það í þjóðaratkvæðagreiðslu — það er nú hægt að breyta því ef tillaga okkar Vinstri grænna verður samþykkt hér á þinginu í vetur — geri nú kröfur um hærri fjárframlög. Það kemur auðvitað ekki skýrt fram í fjárlagafrumvarpinu enda er þessi krafa tiltölulega nýlega komin fram, en væntanlega mun ríkisstjórn Íslands standa frammi fyrir þessum valmöguleikum: Eigum við að setja meiri fjármuni í hernaðarbandalag hvers aðgerðir hafa ekki skilað friðsamlegri heimi — nægir þar að líta á Líbíu og Afganistan — eða ætlum við að forgangsraða og setja þessa fjármuni í þróunarsamvinnu þar sem við sjáum ótvírætt árangur, bætt lífsgæði (Forseti hringir.) og meiri líkur á friðsamlegri heimi?

Ef hæstv. ráðherra fengi að ráða, hvort mundi hann velja?