144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:46]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla svo sem ekki að lengja þessa umræðu mikið frekar. Ég deili skoðunum hv. þingmanns, ég tel að við séum þjóð sem getum bætt í þegar við erum búin að tryggja lágmarksfjármögnun í því kerfi sem við erum með. Við erum á góðri leið með að gera það í þessum öðrum fjárlögum og getum þar af leiðandi, eins og áætlun hæstv. utanríkisráðherra er, lagt fram áætlun í vetur um hvernig framlögin verði næstu árin. Þar verður tækifæri til að sinna þessum þætti enn betur en við höfum gert.

Við komum lítillega inn á þessa fjóra skóla Sameinuðu þjóðanna sem við höfum. Þeir eru mjög góð tæki, skila mjög miklu út í samfélag þróunarríkja. Ég kom aðeins inn á umhverfismálin, jarðhitaleit og að hjálpa þeim með þau verkefni sem við höfum verið með í Austur-Afríku. Það er ekki bara jákvætt fyrir þau ríki að komast í orku sem er heilnæm og miklu betri en að brenna kolum og olíu, heldur er þetta jákvætt fyrir allan heiminn. Þar leggjum við okkar af mörkum til að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda, ekki bara á Íslandi heldur líka í öðrum löndum. Ávinningurinn er margvíslegur af þróunarstarfi en fyrst og fremst byggist hann á því að tryggja þau réttindi sem hv. þingmaður kom inn á í þessum ríkjum.