144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:48]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Við erum að ræða um hlut utanríkismála í fjárlagafrumvarpinu. Ég vil taka undir með þingmönnum sem töluðu á undan mér. Ég vil taka undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, ég get tekið undir flest í ræðu starfandi hæstv. ráðherra. Ég vil líka taka undir með hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni, ég sé ekki eftir einni einustu krónu í utanríkismál vegna þess að þetta er verkefni utanríkisþjónustunnar, bæði í utanríkisþjónustunni sjálfri í því að vera andlit og tengiliður Íslands við umheiminn og síðan þátttakandi í alþjóðlegu starfi og þróunarstarfi, og það skiptir mjög miklu máli.

Íslendingar eru tiltölulega lítil og fámenn þjóð. Við erum dvergur í alþjóðasamhengi. Það er ekki horft upp til okkar af því að við erum stór og öflug heldur er horft til okkar þegar við þykjum vera flott og töff og sniðugri en aðrir. Maður heyrir mjög oft á alþjóðavettvangi aðdáun á Íslandi fyrir það til dæmis að vera friðsöm og herlaus þjóð og stór hluti af því sem Ísland kemur með á alþjóðavettvangi er herleysi og það að vera í broddi fylkingar þegar kemur að mannréttindamálum um allan heim. Til þess að geta gert þetta þurfum við að hafa öfluga og góða utanríkisþjónustu. Við höfum haft hana.

Þegar við ræddum fjárlög hér fyrir ári síðan og sáum aukna niðurskurðarkröfu á utanríkisþjónustuna var það sorglegt og í þeirri umræðu var mikið vísað til þess að það væri vegna þess að aðstæður væru sérstaklega slæmar. Nú sjáum við því miður ekki annað en að rétt sé verið að halda í horfinu. Ég hef áhyggjur af því þegar kemur að öllum þeim störfum sem við höfum sett á utanríkisþjónustuna, starfsfólk í utanríkisþjónustunni má ekki bugast og við þurfum að geta staðið undir öllu því sem við ætlum starfsfólkinu og starfseminni.

Tíminn er að verða búinn hérna í fyrri ræðunni en mig langar að spyrja starfandi ráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að ekki sé verið að auka fé, sérstaklega í sendiskrifstofur og í starfið, til þess að halda rödd Íslands (Forseti hringir.) á lofti og líka til þess að efla starf okkar gagnvart EES-samningnum eins og stendur í Evrópustefnu (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar.