144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:53]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hvatninguna og fyrir að meðtaka hvatningu mína.

Ég lít svo á að hér í 1. umr. um fjárlög séum við auðvitað að ræða fjárlagatillöguna en einnig að afla okkur upplýsinga hjá ráðherrunum og að einhverju leyti að leggja til umræðunnar þegar fjárlögin fara síðan til nefndar.

Ég vil því ítreka og taka undir mikilvægi þess að horft sé til þess í utanríkisþjónustunni og í starfi sendiskrifstofanna að svo vel megi vera, í það minnsta megi alls ekki taka meira niður og þurfi helst að bæta vel í.

Mig langar líka til þess að taka aðeins þátt í umræðunni um þróunarsamvinnuna. Það er dálítið sorglegt að í umræðunni sem varð í fyrra þegar tekin var ákvörðun um að standa ekki við áætlun um að auka í þróunaraðstoðina var talað um að það væri gert vegna þess að við værum í sérstaklega slæmum aðstæðum og að það yrði blásið í um leið og hægt væri. Það er sorglegt að sjá engin merki um það núna eða alla vega mjög takmörkuð merki. Ég vil minna okkur á og koma með það innlegg í umræðuna að það er stutt síðan Ísland var sjálft þróunarríki. Við urðum í raun og veru sjálfbær um sement og áburð í gegnum þróunaraðstoð sem við fengum. Við höfum góðan skilning á því hvað aðstoð á milli landa skiptir miklu máli til þess að lyfta þjóðum upp, öðru fólki. (Forseti hringir.) Núna þegar við erum rík, þótt við séum ekki jafn rík og við vildum vera, er þetta spurning um (Forseti hringir.) að halda haus og til þess þurfum við að standa okkur vel í þessum málum.