144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:57]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég geri hér grein fyrir þeim þætti sem varðar mennta- og menningarmálaráðuneytið. Fjármálaráðherra hefur þegar fjallað um almennt fyrirhugaðar aðhaldsráðstafanir á næsta ári og farið heildstætt yfir þau áform fyrir öll ráðuneyti og málaflokka.

Heildargjöld mennta- og menningarmálaráðuneytisins árið 2015 eru áætluð 81,1 milljarður kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 9,3 milljörðum kr., en þær nema 11,5% af heildargjöldum ráðuneytisins. Gjöld umfram tekjur eru tæpir 71,8 milljarðar kr. og af þeirri fjárhæð eru um 69,5 milljarðar kr. fjármagnaðar með beinu framlagi úr ríkissjóði og 2,3 milljarðar innheimtir af ríkistekjum.

Í frumvarpinu aukast útgjöld mennta- og menningarmálaráðuneytisins um 664 millj. kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2014, sem er 1% hækkun frá fjárlögum, en þegar einnig er tekið tillit til áhrifa af almennum verðlags- og gengisbreytingum hækka útgjöldin um 4,7 milljarða á milli ára, eða sem svarar til 7 prósentustiga.

Hækkun útgjalda vegna fyrirliggjandi skuldbindinga á árinu 2015 er 1,9 milljarðar kr. Til nýrra verkefna er varið 400 millj. kr., en á móti koma lækkanir sem nema um 1,5 milljörðum kr. vegna tímabundinna verkefna sem falla niður og aðhaldskröfu sem gerð er til ráðuneytisins. Aðrar breytingar eru launa- og verðlagsbætur.

Útfærsla í frumvarpinu á fjárveitingum til verkefna mennta- og menningarmálaráðuneytisins markast af því að leitast er við að standa vörð um lögbundin verkefni, grunnstarfsemi og lykilstofnanir. Þetta hefur meðal annars áhrif á það hvernig staðið er að því að mæta þeirri aðhaldskröfu sem gerð var til ráðuneytisins við undirbúning frumvarpsins. Þá var lögð aukin áhersla á forgangsröðun og þannig leitast við að styrkja rekstrargrunn stofnana ráðuneytisins og auka samræmi á milli þeirra krafna sem gerðar eru til þeirra um þjónustu sem ætlast er til að þær veiti og þess fjármagns sem veitt er til starfseminnar.

Á háskólastigi er gert ráð fyrir að heildarframlög til málaflokksins hækki um 930 millj. kr. að frátöldum verðlagsbreytingum. Helstu hækkanir, eða um 460 millj. kr., tengjast áformum um styrkingu á rekstri háskólastofnana með hækkun á einingaverðum einstakra reikniflokka í reiknilíkani háskólanna.

Þá er gert ráð fyrir liðlega 400 millj. kr. hækkun framlaga í Rannsóknasjóð vegna aðgerðaáætlunar Vísinda- og tækniráðs fyrir árin 2015 og 2016. Á móti falla niður tímabundin framlög að upphæð 250 millj. kr. og annað eins vegna aðhaldskröfu til málaflokksins.

Háskólastigið stendur frammi fyrir miklum áskorunum. Því miður gengu ekki eftir fyrirhugaðar breytingar á skipulagi háskólakerfisins sem unnið hefur verið að og var gert ráð fyrir að næðu fram að ganga á yfirstandandi ári. Þetta hefur tafið fyrir nauðsynlegum úrbótum í málefnum einstakra stofnana. Innan mennta- og menningarmálaráðuneytisins hefur farið fram ítarleg greining á fjárhagsstöðu háskóla og unnið mikið starf við endurskoðun á áherslum og skipulagi háskólakerfisins auk þess sem Vísinda- og tækniráð hefur ályktað um þessi mál. Gert er ráð fyrir að áframhald verði á þeirri vinnu og afrakstur hennar lagður til grundvallar heildarstefnu fyrir málaflokkinn.

Á báðum skólastigum, háskóla- og framhaldsskólastigi, er gert ráð fyrir að dragi úr nemendafjölda á milli ára. Þar fer saman áhrif batnandi atvinnuástands og þess að gert er ráð fyrir að auka kröfur um námsframvindu. Mikilvægt er að svigrúm sem þannig verður til verði nýtt til þess að styrkja rekstur skólastofnananna sem hefur verið þungur undanfarin ár vegna aðhaldsaðgerða.

Á framhaldsskólastigi er gert ráð fyrir að heildarframlög til málaflokksins hækki frá gildandi fjárlögum um 105 millj. kr., að frátöldum launa- og verðlagsbótum en þær nema liðlega 2,9 milljörðum kr. Aðhaldskrafa málaflokksins nemur um 260 millj. kr. Helstu hækkanir til málaflokksins eru um 566 millj. kr. sem renna til þess að styrkja rekstrargrunn skólastofnana á framhaldsskólastigi og til þess að fylgja eftir og styðja við breytingar á framhaldsskólastiginu.

Til þess að fylgja eftir ákvæði í kjarasamningum framhaldsskólakennara um nýtt vinnumat er gert ráð fyrir 75 millj. kr. sem er seinni hluti heildarframlags upp á 150 millj. kr. Þá er gert ráð fyrir 265 millj. kr. á næsta ári vegna byggingar verknámshúss við Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Tímabundin framlög að fjárhæð liðlega 600 millj. kr. falla niður. Þar eru umfangsmest framlög sem tengdust átakinu Nám er vinnandi vegur. Aðhaldskrafa á málaflokkinn vegna markmiðs um jöfnuð í ríkisútgjöldum nemur 260 millj. kr.

Á yfirstandandi ári hefur nemendum í framhaldsskólum fækkað og er gert ráð fyrir að sú þróun haldi áfram eins og vikið var hér að framan vegna markmiða um að fleiri nemendur ljúki námi á skemmri tíma en nú er. Mikilvægt er að fylgja þessu eftir með nauðsynlegum skipulagsbreytingum þannig að aðgengi að námi, fjölbreytileiki, námsframboð og gæði skerðist ekki. Vinna við það er þegar hafin.

Á sviði menningar-, íþrótta- og æskulýðsmála hækka heildarframlög um 160 millj. kr., að frátöldum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema um 280 millj. kr. Helstu hækkanir eru liðlega 100 millj. kr. vegna samkomulags um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu fyrir árin 2012 til 2015.

Gert er ráð fyrir að um 60 millj. kr. fari til styrkingar á rekstrargrunni einstakra stofnana á sviði menningar og lista auk ýmissa minni breytinga.

Niðurfellingar tímabundinna verkefna nema um 110 millj. kr.