144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:03]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa yfirferð. Það eru tvö mál sem mig langaði að inna hann eftir og fá nánari skýringar á. Það er í fyrsta lagi aðeins varðandi fækkun nemendaígilda í framhaldsskólunum. Ef ég fókusera á það í þetta skipti og kannski þann texta sem fylgir má skilja textann á þann veg að setja eigi einhvers konar fjöldatakmarkanir inn í framhaldsskólana og þá ekki síst á elsta hópinn, þ.e. 25 ára og eldri. Talað er um að beina honum í aðra farvegi innan svokallaðrar fullorðinsfræðslu. Ég vil fá að vita frá hæstv. ráðherra hvað er nákvæmlega þarna á ferðinni; það er í raun ekkert annað en það sem stendur í þessum texta sem gefur til kynna hvernig eigi að gera þetta en mér finnst við þurfa að fá nánari skýringar á þessu.

Eins finnst mér líka örlítið undarlegt að sjá hér skóla sem hafa verið mjög umsetnir á undanförnum árum fá fækkun á nemendaígildum. Ég ætla ekkert að fara að telja þá upp hér. Við getum nefnt Menntaskólann í Reykjavík, Kvennaskólann, Menntaskólann á Akureyri o.fl. sem hér fá fækkun nemendaígilda. Ég spyr hvort í raun sé ekki verið að herða að þessum skólum og verið að skikka þá til að taka færri inn. Ég vil kannski fá að heyra í hæstv. ráðherra hvaða stefna býr þar að baki þannig að þingheimur sé upplýstur um það hvernig menn ætla að ná þessu fram.

Að öðru leyti vil ég líka ræða við hæstv. ráðherra um virðisaukaskattinn. Umræðan um matarskattinn hefur farið hæst. Það sem hefur kannski minna verið rætt er að þessi hækkun á neðra þrepinu hefur töluverð áhrif á málaflokk hæstv. ráðherra, þ.e. mennta- og menningarmálin, vegna þess að þarna undir eru til dæmis allar bækur. Ég hef áhyggjur af þessu. Félag bókaútgefenda sendi okkur þingmönnum tölvupóst í dag. Þar koma mjög góðar upplýsingar um það hvernig bækur eru skattlagðar í Evrópu. Förum við upp í 12% erum við meðal þeirra fjögurra ríkja sem leggja hvað mesta skatta á bækur. Ég hef áhyggjur af þessu. Ef eitthvað er hefði ég haldið að við þyrftum að tryggja gott aðgengi að bókum hér á landi frekar en hitt. Sömuleiðis hef ég áhyggjur af því að þarna er líka um að ræða skólabækur. Þannig að enn þyngist róðurinn fjárhagslega hjá þeim sem stunda nám hér á landi.

Ég hefði vonað að hæstv. ráðherra kæmi nú með okkur í það lið að fá menn til að endurskoða þessa ákvörðun sína þó ekki væri nema til þess að standa (Forseti hringir.) vörð um bókaþáttinn, það sem snýr beint að honum.