144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:21]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hvað varðar athugasemdir um kyrrstöðu vil ég gefa dæmi um það sem verið er að bæta í og það er til dæmis Bókasafnssjóður, sem hafði mátt þola miklar skerðingar á árum áður en fær núna aukaframlag til að styrkja starfsemina. Það var mjög brýnt og þurfti að ráðast í og þarf að bæta við áfram á næstu árum til að vinna upp þann mikla niðurskurð sem hafði orðið á þessum sjóði.

Hvað varðar þær tölur sem hér eru nefndar af hálfu hv. þingmanns um virðisaukaskattinn á bækurnar þá er alveg rétt að þessi niðurstaða mundi setja Ísland í þetta þrep. Það er þó lægra þrep en var fyrir örfáum árum síðan þegar virðisaukaskatturinn var 14%. Ég er alls ekki að gera lítið úr þeim áhyggjum sem uppi eru. Ég get alveg skilið þær og ég tel að þar séu mörg og mikilvæg rök sett fram, en ég ítreka að það er áhugavert að skoða þessi áhrif gegnum tíðina.

Það er nefnilega svo margt annað sem hefur áhrif á, t.d. almennur efnahagur. Ef það er þannig, og auðvitað þarf ekkert að efa það, það er þannig, að þessi breyting á virðisaukaskattskerfinu mun auka kaupmátt í landinu þá er það svo að þar með myndast tækifæri til að nota þá fjármuni sem þannig myndast eftir því sem hentar og að sjálfsögðu vonast maður til að það fari m.a. til að kaupa bækur.

Hvað varðar síðan aðra þætti sem hv. þingmaður nefndi til viðbótar, ef ég man rétt var síðasti þátturinn — (Gripið fram í.) já, akkúrat, ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það er lagt hér upp með meðal annars 3 milljónir til máltækni til að íslensk tunga verði almennt notuð við tölvu- og upplýsingatækni. Ég geri mér grein fyrir að þetta eru ekki háar tölur og það þarf að skoða betur. Ég er búinn að ganga frá nefndaskipan hvað þetta mál varðar en ég held að við getum öll verið sammála um (Forseti hringir.) að það var ástæða fyrir því að þingið náði saman um þingsályktunartillögu um þetta mál, þetta er mikilvægt mál, og er sjálfsagt að það verði áfram til umræðu.