144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:23]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir framsögu sína um fjárlagafrumvarpið. Eins vil ég þakka þeim þingmönnum sem talað hafa hér á undan mér. Þetta er svipað hjá mér og á síðasta ári að þegar maður les fjárlagafrumvarpið, alveg sama hvar það er í raun, alls staðar vantar pening. Það er bara þannig, þetta virðist vera þannig ár eftir ár að það vantar pening í alla málaflokka og ekki síst í menntun sem er mjög sorglegt.

En ég er líka mjög hissa á því hvað fólk er hissa yfir því hvernig fjárlagafrumvarpið lítur út. Það sagði sig náttúrlega alveg sjálft hvernig þetta mundi verða. Það þurfti ekki að koma neinum á óvart.

Ég vil líka byrja á því að fagna því, það er margt jákvætt, að verið er að auka fé í samkeppnissjóð Vísinda- og tækniráðs. Einnig, og það snertir mitt kjördæmi, er verið að auka framlög í skólabyggingu verkmenntahúss Fjölbrautaskóla Suðurlands sem er gríðarlega þarft og vert verkefni.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um Nám er vinnandi vegur. Á síðasta ári var auglýst eftir umsóknum frá skólum, þ.e. skólar voru beðnir um að koma með hugmyndir. Ég veit til þess að Keilir á mínu svæði sendi inn umsókn, mjög vel útfærða umsókn, og síðan áttu þeir að fylgja því eftir með fundi í ráðuneytinu. Þeim fundi var frestað á síðustu stundu og sagt að haft yrði samband innan fjögurra vikna til að ganga frá málinu. Þetta var í nóvember 2013. Síðan gerðist ekki neitt og ekkert samband var haft við Keili eða aðrar stofnanir sem sennilega sóttu um þetta. Niðurstaðan í fjárlögunum er síðan sú að Háskólinn á Bifröst fær alla úthlutunina, 160 millj. kr. Mig langar bara til að vita hvers vegna það er. Hvers vegna fer þetta allt á einn stað og hvers vegna var ekki haft samband við aðrar stofnanir? Eftir því sem mínar heimildir segja var Bifröst ekki einu sinni á lista þeirra sem sóttu um eða sendu inn hugmyndir.

Verslunarskóli Íslands og Menntaskólinn á Bifröst fá húsaleigugreiðslu með nemendaígildunum en það á ekki við um Keili. Mig langar til að vita hvers vegna það er. Þeir greiða töluvert háar upphæðir fyrir húsaleigu í húsnæði sem ríkinu var gefið uppi á Velli.