144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:26]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því sem kom fram hjá hv. þingmanni um þá fjármuni sem til skiptanna eru. Ég hef verið að fylgjast með þessum umræðum hér í dag og vart hefur sá málaflokkur komið til umræðu að ekki hafi allir verið sammála um það, og enginn þar skorist úr leik, að þetta sé sá málaflokkur þar sem þarfnist nú mest aukningar við. Þannig hefur dagurinn gengið fyrir sig og enginn hefur nokkurn tíma sagt neitt annað. En augljóslega stöndum við frammi fyrir því að sú jafna gengur ekki upp. Við munum aldrei geta aukið svo í alla málaflokka að allir verði ánægðir með stöðu þeirra. En ég skil þess vegna vel upplifun hv. þingmanns.

Hvað varðar Nám er vinnandi vegur þá var það tímabundið átak sem sérstaklega var gripið til vegna þess að menn voru að reyna að bregðast við stöðu á vinnumarkaði. Ég var reyndar ekki sáttur við þá aðferðafræði sem þar var lögð til grundvallar og tel að þessir fjármunir hafi ekki nýst nægilega vel. En þessi aðferð var notuð. Síðan var skipaður starfshópur þar sem komu að aðilar frá atvinnulífinu, verkalýðshreyfingunni o.s.frv. sem unnu að því að útfæra það hvernig þessum fjármunum var varið, tóku á móti umsögnum, mátu þær o.s.frv. Niðurstöður sem birtast um það hvernig þessum fjármunum hefur síðan verið varið endurspegla þetta. Ég get ekki á þessari stundu tjáð mig nákvæmar um þetta en ef þingmaðurinn óskar þess þá get ég skoðað það alveg sérstaklega.

Sama gildir, verð ég að segja, með þá spurningu sem hv. þingmaður beinir til mín varðandi húsaleiguna hjá Keili. Vitanlega voru þessar byggingar gefnar til ríkisins en þar með eru þær eign ríkisins og þar með gildir um þær eins og annað að innheimt er leiga fyrir not af þeim o.s.frv. En enn og aftur, ég er alveg tilbúinn til að skoða það mál alveg sérstaklega ef þingmaðurinn kallar eftir því. Ég heyri þó að hv. þingmaður er ágætlega vel upplýstur um málið. Ég skal játa að ég veit ekki nákvæmlega hvernig farið er með húsaleigu í öllum þeim skólum sem heyra undir ráðuneytið.