144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hvað varðar málefni Fisktækniskólans þá get ég tekið undir með hv. þingmanni að þar stendur mjög merk tilraun yfir og frumkvöðlastarf; skóli sem býður upp á þjónustu sem að mínu mati vantar inn í okkar menntakerfi. Þess vegna hef ég sagt við forsvarsmenn skólans að ég vildi gjarnan sjá þetta ganga upp hjá þeim. Þegar síðan kemur að því að láta þetta passa inn í menntakerfið, fylla alla samninga og allt slíkt, þá tekur þetta sinn tíma eins og oft er. En það er ríkur vilji hjá okkur að styðja við bakið á slíkri starfsemi þannig að hún geti líka þróast á réttum forsendum og á öruggum grunni, það skiptir miklu máli. Þannig að við fylgjumst vel með þessu máli.

Hvað varðar æskulýðs- og íþróttamál þá lögðum við í það minnsta áherslu á að hlífa þeim málaflokki sem best. Það má kannski kalla það kyrrstöðu en hitt hefði verið heldur verra ef skera hefði þurft niður þar. Það er sú staða sem er uppi en ég get að sjálfsögðu tekið undir það með hv. þingmanni að þarna er um að ræða mikilvægan málaflokk.

Hvað varðar landsliðin þá eru fjármunir veittir til íþróttasambandanna, til ÍSÍ o.s.frv. sem síðan dreifa þeim fjármunum til mismunandi sambanda. Það er alveg hárrétt, sem hv. þingmaður nefndi líka, að KSÍ er í sérstöðu hvað þetta varðar og einstaklega sorglegt að landsliðið hafi ekki náð að komast á heimsmeistaramótið hér síðast þó ekki væri nema vegna þess að umtalsverðir fjármunir hefðu fylgt því ef það hefði farið þannig.

Ég vil enn og aftur ítreka það að hvað varðar Fisktækniskólann, svo að ég noti nú þessar örfáu sekúndur sem hér eru eftir, að við fylgjumst vel með því og viljum gjarnan að það gangi ágætlega fram. Ég held að það skipti máli fyrir okkur.