144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:56]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Áður en ég hef svar mitt hvað varðar einstaka þætti fjármögnunar vek ég enn á ný athygli á niðurstöðu frá OECD um stöðu Íslands í háskólamálum. Það er mjög sláandi sem hér kemur fram og mjög til umhugsunar fyrir okkur öll að meðalaldur nýnema í fræðilegu háskólanámi á Íslandi skuli vera 26 ár, að það skuli vera hæsti meðalaldur nokkurs OECD-lands. Meðalaldurinn í OECD er 22 ár.

Jafnframt skulum við horfa til þess að þegar skoðaður er sá hluti ungs fólks sem má eiga von á því að ljúka háskólaprófi einhvern tímann á lífsleiðinni, miðað við brautskráningartölu frá árinu 2012, er sú tala á Íslandi 60% samkvæmt OECD. Þetta er hæsta hlutfall nokkurs skólakerfis í skýrslunni, mun hærra en OECD-meðaltalið sem er 37%. Ég held að þegar við ræðum þessi mál sé rétt að við römmum þau svolítið inn með þessu tvennu.

Hvað varðar það sem sagt er um gæði háskólastarfsins er nú óumflýjanlegt að horfast í augu við það að við erum ekki að fjárfesta nægjanlega í háskólakerfinu. Ef það gerist sem má reikna með í batnandi atvinnuástandi, að það dragi nokkuð úr þeim kúf sem varð meðal annars vegna hruns fjármálakerfisins, má fastlega gera ráð fyrir því að það verði nokkur fækkun. Þá skiptir máli að ekki verði dregið úr framlögum til skólans. Það verður 302 millj. kr. hækkun á framlagi til kennslu vegna breytinga á verði reikniflokka. Vissulega kemur aðhaldsmarkmið á móti en það þýðir þó að okkur miðar í rétta átt og að við getum örugglega öll verið sammála um að það er ágætt að geta farið hraðar.