144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:05]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar athugasemdir og spurningar. Ég tek undir að auðvitað er alveg grátlegt að horfa á liðinn vaxtagjöld ríkissjóðs og hugsa um allt sem við gætum verið að gera til að styrkja samfélag okkar ef þessi tala væri ekki svona há. Eina leiðin til að ná þessari tölu niður er að spara annars vegar en hins vegar að nýta aðra möguleika sem kynnu að opnast til að lækka skuldir ríkisins á næstu missirum og árum. Þessar tölur hverfa því miður ekki. Þessar skuldir eru þarna og af þeim þarf að borga þessa vexti. Þetta er mjög íþyngjandi og alveg hárrétt sem hv. þingmaður nefnir, grátlegt á að horfa.

Hvað varðar stöðu háskólanna þá gerði ég aðeins grein fyrir, í umræðum við hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur hér áðan, áhyggjum mínum af þeim ramma sem ég setti upp, þ.e. þessum mjög háa meðalaldri nýnema. Ég er ekki endilega að kalla eftir því að við séum akkúrat í OECD-meðaltalinu en það hlýtur að vera til umhugsunar að meðalaldur sé 26 ár og að meðalaldur þeirra sem ljúka BA-/BS-gráðu sé 30 ár. Það er alla vega til umhugsunar. Það þýðir ekki að ég sé á móti því að fólk fari í háskólanám þegar það er komið á efri ár en þetta er eitthvað sem við þurfum að spyrja okkur vegna þess að við getum ekki haft það þannig endalaust að segjast tala fyrir einni stefnu en neita að borga fyrir hana en það er það sem við erum að gera núna og höfum verið að gera árum saman.

Seinasti þáttur fyrirspurnar hv. þingmanns er mjög áhugaverður og varðar ungt fólk og atvinnustöðu þess. Ég er einmitt mjög hugsi yfir námsvalinu og við hljótum öll að vera það. Ég velti því auðvitað fyrir mér þegar ég sé innritunartölur hvers vegna í ósköpunum svo margir skrá sig í lögfræði, með fullri virðingu fyrir því góða fagi, við þær aðstæður sem nú eru, svo að (Gripið fram í.) ég taki nú dæmi af einu fagi. Mér er það mjög til minnis að ég sat útskrift hjá Háskóla Íslands fyrir rúmlega ári og fylgdist með glæsilegum hópi ungs fólks. Það voru langar raðir úr hinum og þessum fögum (Forseti hringir.) en mig minnir að einn hafi labbað yfir sviðið þegar kom að matvælaverkfræðinni, í þessu mikla matvælaframleiðslulandi.