144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég biðst velvirðingar á því að hafa ekki náð að snerta umræðuna um brottfallið sem er gríðarlega mikilvægt mál og margflókið.

Á undanförnum árum hefur verið gripið til ýmissa aðgerða til að greina betur ástæðu brottfallsins eða nákvæmlega hvað það er sem veldur því að krakkarnir hætta í námi. Nýlega komu reyndar fréttir um það, þegar kemur að umræðu um aldur nemenda, að eftir því sem þeir séu eldri því meiri hætta sé á brottfalli á framhaldsskólastiginu. Brottfall er vissulega mjög stórt vandamál. Enn og aftur, þetta er eitt af þeim vandamálum þar sem er ekki bara einhver ein lausn til staðar. Það þarf að nálgast vandann úr mörgum áttum.

Önnur umræða sem sjaldnar er hér uppi og er tengd framhaldsskólunum og reyndar háskólunum líka er um námsframvindu. Við erum ekki bara í vanda með brottfallið heldur líka námsframvindu. Með námsframvindu er það svo að þegar kemur að því hversu stór hluti af ungmennum okkar sem skrá sig í framhaldsskólana — það er á hverju ári um það bil 98% af krökkum sem klára grunnskólaprófið — klárar framhaldsskólanámið á tilsettum tíma þá er talan því miður allt of lág. Ætli það sé ekki um það bil 45–47% af árganginum sem klárar á tilsettum tíma.

Þegar skoðað er hvernig önnur menntakerfi styðja við ungmenni sín að klára það nám sem fyrir þau er sett á þessum tíma þá kemur í ljós að við Íslendingar erum neðst í samanburði OECD-ríkjanna. Við stöndum okkur verst í því að búa til kerfi sem tryggir að krakkarnir klári á tilsettum tíma. Þá skiptir ekki máli hvort námið er þrjú ár, fjögur ár eða hvernig það er — það er bara kerfið sem bíður þeirra, sem tekur á móti þeim, í því stöndum við okkur verst. Þegar horft er á stöðuna sex árum eftir að þau hefja nám þá er staðan sú að rétt innan við 60% hafa lokið því námi sem þau skráðu sig í. Það þýðir að 22 ára eru 40% af hópnum enn í þeirri stöðu að hafa ekki lokið námi, hafa ekkert í höndunum til að sýna framtíðarvinnuveitenda eða næsta námsstigi. (Forseti hringir.) Það er mjög alvarleg og vond staða.