144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég tek hér til máls undir lok 1. umr. fjárlaga fyrir árið 2015.

Í dag höfum við látið reyna aftur á það fyrirkomulag að fagráðherrarnir komi hingað í þingið og geri grein fyrir þeim málaflokkum sem undir þá heyra og tengjast fjárlögunum. Mig langar til þess að segja fyrst um það fyrirkomulag að mér finnst það vera á margan hátt ágætt og hafa reynst vel. Það er hægt að sjá það vel fyrir sér að þróa þetta fyrirkomulag áfram. Mér finnst að með þessu móti fáist ágætisumræða sem fer ekki um víðan völl heldur beinist meira að einstaka málaflokkum hverju sinni eftir því hvaða ráðherra er í ræðustól til andsvara.

Annars almennt um umræðuna þá hefur hún tengst, sem eðlilegt er, tekjuöflunarfrumvörpunum, breytingum á virðisaukaskatti og öðrum slíku í mjög ríkum mæli. Ég vil taka það fram að sú umræða er eftir í sérstakri umræðu þegar mælt verður fyrir þeim málum, þau hafa verið lögð fram. Þá verður aftur tækifæri til þess að fara sérstaklega yfir áhrif breytinganna fyrir hag heimilanna og hvaða þýðingu það hefur fyrir tekjuöflunarkerfin að ráðast í þessar breytingar eða gera það með einhverjum öðrum hætti. Auðvitað er að finna í fjárlagafrumvarpinu hugmyndir um það með hvaða hætti við komum til með að beita mótvægisaðgerðum og eðlilegt að þetta sé allt rætt í samhengi. Það leiðir hugann líka að því að það er mikið framfaraskref fyrir okkur að ræða í einu lagi og fá í einu lagi fram fjárlagafrumvarpið og öll tekjuöflunarfrumvörpin þannig að þeim sé ekki bara lýst í grófum dráttum heldur liggi fyrir frá upphafi þings. Það er töluvert mikil breyting fyrir þingið, að ég tala nú ekki um frá því í september, að hafa hvort tveggja til grundvallar vinnunni og umræðunni fram eftir hausti. Ég vonast til þess að það nýtist okkur vel til að gaumgæfa allar hliðar mála og vil lýsa því yfir að ég býð fram krafta fjármálaráðuneytisins til að styðja við vinnu nefndarinnar ef eftir því verður óskað og óska eftir góðu samstarfi við alla nefndarmenn um skoðun málsins sem bíður nefndarinnar, það er heilmikið verk.

Það verður fleira á könnu nefndarinnar í vetur sem mun útheimta mikla vinnu. Þar nefni ég t.d. frumvarp til laga um opinber fjármál sem er mjög mikil lagabreyting. Ég vonast til þess að við náum að klára það núna á haustþingi fyrir áramót. Það verður að koma í ljós.

Um frumvarpið sjálft og þá umræðu sem hefur farið fram er það algert meginatriði fyrir stjórnarflokkana að hér er frumvarp lagt fram sem styður við áframhaldandi jafnvægi í efnahagsmálunum og styður við aukningu lífskjara. Við höfum haft lága verðbólgu og það hefur tekist á þessu ári og er vel raunhæft að það haldi áfram inn á næsta ár að auka kaupmátt launþeganna í landinu. Það er sömuleiðis afar mikilvægt að umræðan í þinginu og í framhaldinu horfi til skuldahliða ríkissjóðs. Skuldirnar eru gríðarlega miklar. Það birtist í vaxtabyrðinni og þessum háum skuldahlutföllum. Það er sama hvernig á það er litið, þetta er mikið áhyggjuefni, ásamt með öðrum skuldbindingum sem ríkissjóður hefur tekist á herðar. Við þurfum að fara að ræða í samhengi við skuldir og skuldbindingar stöðu lífeyrissjóðakerfisins. Inn í þá mynd spilar líka ríkisábyrgð á starfsemi Íbúðalánasjóðs. Þessi stóra mynd er mjög snar þáttur í allri umræðu um ríkisfjármál til næstu ára.

Því meginmarkmiði er náð með framlagningu þessa frumvarps að stöðva skuldasöfnun, að stuðla að jafnvægi í verðlagsmálum, að styðja við vöxt kaupmáttar launa í landinu, auka þannig ráðstöfunartekjurnar, á sama tíma og við forgangsröðum í þágu áframhaldandi uppbyggingar bæði innviða og velferðarkerfisins.

Að sjálfsögðu tek ég eftir því í umræðunni hér að mörgum þykir ekki nóg að gert. Hið gullna jafnvægi í allri fjárlagagerð, sem stöðugt er leitað að, er að sýna ráðdeild og ábyrgð á sama tíma og innviðir eru styrktir og velferðin byggð upp. Ég tel að það hafi tekist ágætlega til við það í þessu frumvarpi og að þetta sé frumvarp sem við getum byggt á fram á næsta ár þannig að allir hópar samfélagsins beri bætt kjör úr býtum.

Að öðru leyti vil ég þakka fyrir málefnalega umræðu og lýsi aftur yfir fullum vilja til þess að eiga gott samstarf við alla nefndarmenn og vænti þess að málinu verði vísað til nefndar og 2. umr. að lokinni þessari.