144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það segir allt sem segja þarf um það hversu illa ígrundað fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2015 er að hér í kvöld hefur hæstv. menntamálaráðherra lýst því yfir að grípa þurfi til sérstakra mótvægisaðgerða vegna skattahækkana á bækur. Nú lýsir hæstv. fjármálaráðherra því yfir, þremur dögum eftir sína eigin framlagningu á málinu, að hann sé algerlega tilbúinn að skoða mótvægisaðgerðir við sitt eigið frumvarp.

Hvers konar undirbúningur er þetta að tillögugerð fyrir eitt samfélag að leggja fram meginplaggið í þinginu, fjárhagsáætlun fyrir íslenska ríkið fyrir allt næsta ár, og vera svo farinn að ræða mótvægisaðgerðir við eigin tillögur nokkrum dögum síðar?

Virðulegur forseti. Þetta er ekki boðlegt.

Hæstv. fjármálaráðherra segir að ég líti fram hjá öðrum aðgerðum í skattamálum. Nei, það er alrangt. Ég hef tilfært þær, en það breytir því ekki að hækkunin úr 7% í 12% er 11 milljarða skattahækkun og Íslandsmet í skattahækkunum.

Hæstv. fjármálaráðherra hefði alveg getað lækkað efra þrepið og afnumið vörugjöldin og sleppt því að hækka lægra þrepið. Hann hefði bara getað haldið áfram auðlegðarskattinum næsta ár vegna þess að auðlegðarskatturinn, sem hann er að fella niður, er um það bil sama upphæð og hann fær í tekjuöflun með því að hækka lægra þrepið úr 7% í 12%. Þess vegna kemst hæstv. fjármálaráðherra ekkert fram hjá því að þó að það sé ágætt að lækka efra þrepið og þó að það sé ágætt að fella niður vörugjöldin er hann að hækka skatt á lífsnauðsynjar. Fyrir fátækustu heimilin, þau tekjuminnstu, kemur þetta dæmi ekki út á núlli því að tekjuminnstu heimilin eiga ekkert val um það að kaupa hita, rafmagn og mat. Þau njóta ekki eins lækkunarinnar (Forseti hringir.) á efra þrepinu og afnáms vörugjaldanna og ríku heimilin í landinu. Svo einfalt er það. Það hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson staðfest að er löngu sannað.