144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er ekki flókið. Það er verið að hækka reikninginn á hvert heimili í landinu um tæplega 100 þús. kr. á nauðsynjar, á húshitun, rafmagn og matvæli, á hluti sem fólk hefur ekkert val um hvort það kaupir eða kaupir ekki, og hinir tekjulægstu þurfa að kaupa eins og hinir tekjuhæstu.

Það má vera hverjum manni augljóst að það að síðan sé slegið eitthvað af gjöldum á innflutning á nýjum raftækjum er ekki með sama hætti nauðsynjavörur, síst fyrir þá sem hafa úr minna að spila en hinir. Þetta dæmi kemur ákaflega ólíkt út fyrir mismunandi tekjuhópa. Nærfellt 100 þús. kr. hækkun á nauðsynjavörur er verulega þungbært fyrir tekjulægstu heimilin í landinu.

Ég hélt satt að segja að við þyrftum ekki að deila um það, við hæstv. fjármálaráðherra, enda er hæstv. fjármálaráðherra kominn í ræðustólinn til að kalla eftir góðum hugmyndum að mótvægisaðgerðum við sínar eigin tillögur. Ég hefði hins vegar talið fara betur á því að hann hefði sjálfur lagt fram í fjárlagafrumvarpinu mótvægisaðgerðir sem dygðu en það var ekki gert enda ætlunin að flytja skattbyrði sem fyrr frá hinum tekjuhærri og eignameiri á almenning.