144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég get verið sammála um það, bæði hæstv. fjármálaráðherra og síðasta ræðumanni, að þetta hefur um margt verið ágæt umræða hér í dag og að sjálfsögðu í gær líka. Fyrirkomulagið sem höfum verið að prufukeyra ein tvö eða þrjú skipti hefur ýmsa kosti, eins og á köflum kom vel í ljós í dag þegar fagráðherrar mættu vel undirbúnir til þess að svara spurningu þingmanna um málaflokka þeirra. Þá er náttúrlega nauðsynlegt að allir slíkir ráðherrar séu við. Hér gerðist sá fáheyrði atburður að einn fagráðherra í þessum skilningi, ráðherra sem hefur yfir að segja verulegum ríkisútgjöldum í ráðuneyti sínu og fer með afmarkaða málaflokka, húsafriðun og græna hagkerfið og hvað það er, neitaði að svara og skaut fyrir sig þeim skildi, hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, að hér væri hann aðeins sem dómsmálaráðherra, eins og þetta væru tveir aðskildir menn eða hann væri búinn að segja af sér sem forsætisráðherra og væri einungis dómsmálaráðherra, aðeins undirráðherra í ráðuneyti hæstv. innanríkisráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.

Þetta var með ólíkindum. Ég verð svolítið hugsi yfir þessu í dag vegna þess að menn virtust ýmsir trúa því að þetta væri svona, að hæstv. forsætisráðherra væri bannað að svara sem forsætisráðherra af því hann væri í ræðustólnum sem dómsmálaráðherra. Ég fór að velta því fyrir mér hvar í ósköpunum það væri í þingsköpum, stjórnarskrá eða öðrum lögum og komst að hinu gagnstæða. Það er einfaldlega þannig að það að halda slíku fram að ráðherra sem er á Alþingi sem fær spurningar frá þingmanni í umræðum sem bjóða upp á svör telji sig ekki mega svara er svo fráleitt að mér finnst það verða að fara í þingtíðindin. Þetta má til dæmis, virðulegur forseti, ráða af 1. gr. stjórnarskrárinnar. Það þarf kannski ekki að lesa meira. Það kunna allir hér 1. gr. stjórnarskrárinnar, er það ekki? Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Ríkisstjórnin svarar til þingsins, sækir umboð sitt til hennar og þingið ber þar með líka ábyrgð á ríkisstjórninni.

Í 50. gr. þingskaparlaga, í kaflanum um eftirlitsstörf Alþingis, er fjallað um upplýsingaskyldu ráðherra til Alþingis. Hvað stendur þar? Með leyfi forseta:

„Við umfjöllun um þingmál, við sérstakar umræður, í svörum við fyrirspurnum þingmanna og í skýrslum, hvort sem er að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni þingmanna, svo og við athugun mála að frumkvæði fastanefnda þingsins, skal ráðherra leggja fram þær upplýsingar sem hann hefur aðgang að og hafa verulega þýðingu fyrir mat þingsins á málinu.“

Það hvílir upplýsinga- og svaraskylda á ráðherrum gagnvart þinginu. Þess vegna, m.a., eiga ráðherrar sæti á Alþingi og hafa málfrelsi og tillögurétt hér þótt þeir séu ekki kjörnir þingmenn. Þetta er allt saman hluti af einni heild af þingræðisreglunni, af þeirri staðreynd að Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn og af þeirri staðreynd að Alþingi er æðsta stofnunin og ráðherrum ber skylda til að svara hér spurningum, fyrirspurnum, taka þátt í umræðum ef eftir því er óskað o.s.frv. Búið með það.

Það er ágætt að hæstv. fjármálaráðherra er mættur aftur til leiks en ég vil leyfa mér að segja að ég saknaði hans í dag. Hér fór þó fram þrátt fyrir allt 1. umr. um fjárlagafrumvarp hans. Vissulega voru fagráðherrar til svara, og gerðu það flestir vel, en það hefði líka verið kostur að hæstv. fjármálaráðherra hefði setið hérna með okkur, alveg sérstaklega til þess að hlýða á það að hver fagráðherrann á fætur öðrum hljóp í burtu frá frumvarpinu og skaut því til þingsins að reyna að lappa upp á það sem verst væri leikið í málaflokki þeirra. Þetta gerðist aftur og aftur og aftur. Maður fer auðvitað að velta því svolítið fyrir sér hvernig þetta standi, ekki síst í ljósi þess að hvorki meira né minna en heill þingflokkur, þ.e. annar stjórnarflokkurinn, hefur einhvers konar fyrirvara á málinu. Það upplýsir aðstoðarmaður forsætisráðherra í blaðaviðtali í morgun. Þetta er nokkuð langt gengið. Aðrir hafa hér farið yfir það hvernig forsætisráðherra sjálfur talaði o.s.frv.

Það hefði verið, held ég, mjög lærdómsríkt fyrir hæstv. fjármálaráðherra að vera hér og heyra hversu mjög menn brugðu á það ráð að hlaupa í burtu frá því að bera nokkra ábyrgð á frumvarpinu þegar kom að óþægilegum atriðum.

Hafandi sagt það skal ég vissulega viðurkenna að það væri ekki í fyrsta skipti sem fjármálaráðherra lýðveldisins stæði svolítið einn þegar kæmi að því að forsvara fjárlagafrumvarp, voru þau kannski verri en þetta.

Það sem mig langar að nefna sérstaklega efnislega eru stórar tölur og stór mál í þessu. Ég hlýt að nefna við hæstv. fjármálaráðherra samgöngumálin. Það var mikil óánægja og mikil vonbrigði hér með það að sá málaflokkur er þannig leikinn að það vantar, miðað við mína samlagningu, vel yfir 3 milljarða kr. til þess að markmið samgönguáætlunar, sem sama ríkisstjórn lagði fram í vor, sé uppfyllt. Það er ansi mikið. Það vantar 2,6 milljarða í vegamálin ein til þess að samgönguáætlunin, nokkurra mánaða gömul, sem ríkisstjórnin lagði hér fyrir þingið í vor, gangi upp. Það verða gríðarlegar þrengingar í vegaframkvæmdunum, sérstaklega hinum almennu vegna þess að þeim mun minni sem framkvæmdatalan er þeim mun meira fer beint í stóru verkefnin sem þegar eru í gangi og verður auðvitað að leggja til fé.

Sömuleiðis tel ég að það sé óskaplega þokukennt hvað til stendur með nýbyggingu Landspítalans eða endurnýjun á húsakosti Landspítalans. Það er mjög óþægileg staða. Hún hefur ekki góð áhrif í heilbrigðiskerfinu sem á í vök að verjast fyrir. Hún hefur mjög slæm áhrif á starfsandann á Landspítalanum, það veit ég fyrir víst vegna þess að á hinum erfiðu tímum undangenginna missira og ára var það eins og ljós í myrkrinu að það var þó búið að setja undirbúning að nýbyggingu á fulla ferð. Nú er aftur biðstaða, óljós þokukennd staða uppi og það er ekki gott varðandi starfsandann þar, varðandi það að við höldum í starfsfólkið o.s.frv.

Í þriðja lagi og að lokum nefni ég þá stóru staðreynd að mér finnst að afkoman sem stefnir í á ríkissjóði árin 2015 og 2016 mikið áhyggjuefni, að aftur verði rekstur ríkissjóðs í járnum. Hv. stjórnarliðar og hæstv. fjármálaráðherra hrósa sér mjög af því að þeir séu nú að leggja fram annað fjárlagafrumvarpið í röð þar sem ríkissjóður er í jöfnuði eða réttum megin við strikið. Nema hvað, stóð einhvern tímann eitthvað annað til? Stóð einhvern tímann til að það væri aftur halli á ríkissjóði árið 2015? Nei, áætlanirnar gengu út á að hann yrði nokkurn veginn kominn í jöfnuð árið 2013, plús/mínus, og síðan byrjaði að myndast afgangur. Það væri auðvitað gríðarlegt fráhvarf frá þeim ríkisfjármálaáætlunum sem unnið hefur verið eftir allt frá 2009 og síðan 2011 ef það væri eitthvað annað en afgangur á ríkissjóði á árinu 2015. En áhyggjuefnið er að hann er hverfandi lítill og aftur árið 2016.

Því segi ég að mér finnst fjármálaráðherra vera í mikilli mótsögn þegar hann svo leggur þetta á borðið, viðurkennir það út af fyrir sig hreinskilnislega að svona sé þetta, afkoma ríkissjóðs í járnum, og um það er fjallað hér í textum, en talar engu að síður digurbarkalega um að hægt sé að halda áfram að lækka skatta, minnka tekjur ríkisins. Það er eitthvað þarna sem ekki gengur upp.

Það er varhugavert í því samhengi, sem hv. þm. Helgi Hjörvar nefndi einnig, að nú þurfum við virkilega að fara að huga að því hvar erum við stödd í sambandi við hagstjórn í landinu og inn á hvaða feril við erum að fara. Það er ískyggilega margt sem er kunnuglegt fyrir þá sem upplifðu árin upp úr aldamótum og fram að 2007/2008, þ.e. að í fyrsta lagi er viðskiptajöfnuðurinn að snúast í neikvæða tölu. Hann fer niður undir núll á næsta ári og verður öfugur á þarnæsta ári samkvæmt pappírum hæstv. fjármálaráðherra sjálfs.

Það er alveg ljóst að margt af því sem núverandi ríkisstjórn hefur verið að gera er í raun og veru þensluhvetjandi, mun ýta undir einkaneyslu. Hvað kemur í ljós? Hagspáin gerir ráð fyrir því að hagvöxtur verði að stórum hluta til drifinn af aukinni einkaneyslu næstu tvö, þrjú árin. Það hringir ekki góðum bjöllum. Ég sé ekki betur að verði þetta fram undan séu að teiknast upp þær sömu gömlu aðstæður að ríkisstjórnin rói með skútuna í austur og Seðlabankinn sé að reyna að amla í vestur. Hvað getur Seðlabankinn gert ef ríkisstjórnin styður ekki á nokkurn hátt við viðfangsefni hans? Hann neyðist til að fara að hækka vexti. Þá er stórhætta á því að við skrúfumst inn í nýjan spíral. Það er bara þannig. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Að lokum vil ég segja að ég tel, því miður, að við þurfum að fara að gæta að okkur í þessum efnum og minni á (Forseti hringir.) hið fornkveðna: Ei veldur sá er varar. Menn hefðu betur hlustað eitthvað á þá örfáu sem reyndu að vara við á (Forseti hringir.) árunum þegar allt var að fara í vitleysu.