144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins örstuttar athugasemdir.

Í fyrsta lagi varðandi vegamál þá get ég tekið undir með hv. þingmanni að við þurfum að finna leiðir til að bæta í þann málaflokk en auðvitað verður ekki bæði sleppt og haldið. Við getum ekki gert allt í einu, það er bara þannig. Þó er verið að auka framlögin til vegamálanna um 850 milljónir sem munu fara í viðhald og ýmsar stórar framkvæmdir eru í gangi. Það er alls ekki svo að vegáætlun hafi alltaf verið fylgt með fjárframlögum hér á Alþingi, það er nú töluvert langur vegur þar í frá.

Varðandi Landspítalann vil ég bara segja að við stöndum þar frammi fyrir gríðarlega dýrri byggingu, kostnaðarsamri uppbyggingu. Síðasta ríkisstjórn var svo sem ekki komin með neinar lausnir á því hvernig ætti að fjármagna það, það bara lá ekkert fyrir, við tókum ekki í arf neinar hugmyndir um slíkt. Vissulega hefur hönnuninni miðað ágætlega fram og við höfum stutt það áfram. Ég styð uppbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss en þó með þeim hætti að ég er ekki tilbúinn til að taka lán fyrir þeirri framkvæmd.

Varðandi afkomuna er það nú ekki eins og áætlanir fyrri ára hafi verið að standast neitt sérstaklega. Síðasta ríkisstjórn tók reyndar sérstaka ákvörðun um að fresta því að ná jöfnuði í ríkisfjármálunum. Hins vegar er það ekki gott hversu lítill afgangur er á næsta og þarnæsta ári, en það er ekki vegna þess að ríkisstjórnin hafi lækkað skatta svo mikið, því eins og sjá má á bls. 69 í fyrra heftinu munu skattbreytingar okkar frá því við tókum við skila 23 milljörðum á næsta ári, 10 milljörðum á árinu þar á eftir og á árinu 2017. Ástæðan er sú að við höfum látið slitabúin og fjármálafyrirtækin borga miklu meira (Forseti hringir.) en þau áður hafa gert. Við höfum lækkað skatta á almenning og atvinnustarfsemi.