144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki skilið mig þannig að ég væri á móti því að fólk hefði ráð á því að gera betur við sig almennt í landinu, sérstaklega ef því er nú réttlátlega skipt, það er ekki vandamálið sem ég er að tala um. Ég er sammála því. Einkaneyslan er enn á lágu stigi frá því sem hún var og ég tala nú ekki um þegar hún var mest enda var hún þá náttúrlega út úr öllu korti og langt umfram það sem langtímastöðugleiki hagkerfisins réði við. Við vorum með allt of hátt raungengi og við vorum með of mikla neyslu. Það kom á daginn. Við vorum ekki svona rík. Við áttum ekki fyrir þessu. Við vorum að skuldsetja okkur bæði inn á við og út á við á þeim árum.

Nei, vandamálið er ekki það hér að ef því er réttlátlega útdeilt í formi kaupmáttar sérstaklega, sem hlúir að tekjulægri hópum samfélagsins, er gott í sjálfu sér að neyslan geti vaxið. Vandinn er hagstjórnin á því tímabili sem vöxturinn er, að missa ekki tökin á því. Reynslan kennir okkur að okkur hefur oft gengið mjög illa með það. Jafnvel má færa fyrir því rök að Íslendingar hafi staðið sig betur við hagstjórn og verið ábyrgari á erfiðleikaárum en þegar þeir fara að telja sjálfum sér trú um að komið sé góðæri. Þá hefur yfirleitt allt farið hér úr böndunum.

Ég er ekki að segja að þetta sé að gerast í dag eða þetta muni gerast strax á næsta missiri, en reynslan kennir okkur líka að við verðum að reyna að skynja það þegar þetta gæti verið í vændum eins tímanlega og kostur er. Því þá eru tækin virk til að takast á við þetta. Það þýðir ekkert að vakna upp aftur á einhverju 2007 og fara að hafa áhyggjur af því að kannski sé þetta farið að fara úr böndunum því að þá er það of seint, þá er skellurinn oft orðinn óumflýjanlegur með mjög skaðlegum afleiðingum.

Þannig að ég er bara að segja það hér: Við skulum vera vel á verði. Vonandi höfum við lært eitthvað af þeirri hræðilega dýru tilraunastarfsemi (Forseti hringir.) sem farið var í með íslenskt samfélag upp úr aldamótunum síðustu.