144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:57]
Horfa

Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka sérstaklega fyrir þennan þarfa lið í umfjöllun fjárlagafrumvarpsins. Það er nauðsynlegt að fá að ræða einstaka liði frumvarpsins við þá ráðherra sem málin heyra undir, eins og við höfum gert í dag, auðvitað að undanskildum hæstv. forsætisráðherra, eins og fleiri hafa nefnt, en hann birtist hér í dag sem hæstv. dómsmálaráðherra og vék sér undan umræðu um þá málaflokka sem tilheyra hans ráðuneyti, þ.e. forsætisráðuneytinu.

Að því sögðu þakka ég hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sína framsögu og fyrir að gefa okkur kost á því mikilvæga samtali sem fer fram hér núna. Við höfum átt ágæta umræðu um fjárlagafrumvarpið í tvo daga. Margt í frumvarpinu er ágætt og auðvitað til fyrirmyndar að við séum hér í september að ræða fjárlaga- og tekjuöflunarfrumvörp samtímis. Ég óska hæstv. ráðherra til hamingju með það.

Að því sögðu má nefna að ákveðnir þættir í því valda mér og okkur í Bjartri framtíð áhyggjum. Það er sorglegt að horfa til þess að grunnstoðir velferðarsamfélagsins á borð við heilbrigðisþjónustu, menntun og samgöngur séu á tæpasta vaði og stofnanir kvarta undan því að hafa ekki nægilegt fjármagn til að sinna lögvernduðum skyldum sínum, að við skulum leggja 20 milljarða í ár í að uppfylla dýrkeypt kosningaloforð, reyndar Framsóknarflokksins, sem meðal annars sjálfur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lýsti yfir í kosningabaráttunni að væru óraunhæfar hugmyndir og yrðu ekki góð fjárfesting til framtíðar.

Það er tómt mál að tala um það núna en samt skýtur skökku við að nýta þessa peninga til að greiða niður einkaskuldir í sömu andrá og við erum að tala um aga í ríkisfjármálum.

Fjárlög snúast ekki bara um peninga, þau snúast um stefnumótun og áherslur hæstv. ríkisstjórnar hverju sinni. Þau segja okkur hvað ríkisstjórninni finnst mikilvægast. Hvað sem hæstv. ráðherra segir eru ákveðin skilaboð fólgin í því að lækka skatta eða vörugjöld á sykur og ýmsar lúxusvörur á meðan við hækkum virðisaukaskatt á matvæli. Þá velti ég einnig fyrir mér hvaða skilaboð hæstv. ríkisstjórn sendir nú út í samfélagið með því að hækka skattprósentuna á bækur og tímarit. Það hefur löngum verið sameiginlegur, þverpólitískur vilji fyrir því að gefa í hvað læsi og menntun varðar og því skýtur skökku við að sjá þessa breytingu í frumvarpinu. Þetta er vissulega áherslubreyting.

Hér hefur hæstv. ráðherra fært rök fyrir því að virðisaukaskattskerfið sé ekki góð leið til jöfnunar í samfélaginu og að bótakerfið henti betur fyrir slíkar aðgerðir. Þar ætti til að mynda hækkun á barnabótum — sem er reyndar bara leiðrétting frá fyrra ári — að jafna út þessa hækkun hjá barnafólki. Ég velti því þá sérstaklega fyrir mér hvaða þýðingu þessi mótvægisaðgerð hefur á umgengnisforeldra, sem er einn fátækasti hópur Íslands í dag. Matarkarfan þeirra mun hækka en eins og við vitum njóta þau ekki sömu kjara og lögheimilisforeldrar, fá sem sagt engar barnabætur, engar mótvægisaðgerðir. Samkvæmt ASÍ eyðir tekjulægri hluti þjóðarinnar um það bil tvöfalt stærri hluta af launum sínum í að kaupa matvæli en þeir sem eru tekjuhærri. Nú erum við auðvitað að tala um hlutfall. Stór hluti þessa hóps á annaðhvort ekki börn eða á börn en nýtur bara ekki þeirrar stöðu í skattframtali sínu. Því virkar þessi mótvægisaðgerð alls ekki á þennan einn stærsta fátæka hóp landsins. Það er áhyggjuefni og setur ákveðið spurningarmerki við það hvort barnabætur séu, eins og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra segir, skilvirkari leið en virðisaukaskattsþrepið til að jafna kjör.

Eins langar mig aðeins að ræða verðlagningu á ýmsum vörum sem eiga nú að lækka samkvæmt framsögu hæstv. ráðherra vegna lækkunar á efra virðisaukaskattsþrepinu. Þeir sem hafa eitthvað velt fyrir sér markaðsfræðum vita vel að verðlagning lúxusvara snýst ekki bara um kostnað framleiðslu eða innkaup á henni. Hún snýst um margt annað, til að mynda vöruaðgreiningu sem byggir ekki á lægri verðlagningu heldur vörumerkjavitund. Verðið á slíkum vörum endurspeglar því ekki kostnaðarverð þeirra eða lækkað virðisaukaskattsþrep. Sagan sýnir að slíkar vörur hafa bara tilhneigingu til að hækka en ekki lækka.

Af hverju skiptir það máli í hinu stóra samhengi? Hinir tekjulægri ættu auðvitað að geta sleppt því að kaupa sér iPhone 6, sem er nú á leiðinni, eða dýrar merkjavörur. Jú, það skiptir einmitt miklu máli fyrir þá tekjulágu því að við erum að horfa framan í þá staðreynd að nauðsynjavörur á borð við mat hækka umtalsvert en vörurnar sem er ætlað að lækka með tilkomu lægra virðisaukaskattsþreps munu að öllum líkindum ekki gera það, a.m.k. ekki í þeim mæli sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Þar af leiðandi mun neysluvísitalan ekki gera annað en að hækka með tilheyrandi hækkun á lánum þeirra. Við erum nefnilega bara búin að borga þeim skaðann aftur í tímann en við erum ekki búin að byrgja brunninn.

Það vekur því furðu mína að hæstv. ríkisstjórn skuli reikna með því að þessar vörur lækki endilega. Með því er ég ekki að segja að allar vörur í efra þrepinu séu lúxusvörur, svo það sé ljóst, en klárt mál er að stór hluti þeirra fellur ekki undir vörur sem maður kaupir þegar þrengir að. Þegar maður missir vinnuna eða þegar maður veikist, þ.e. þegar áföll verða, kaupir maður ekki endilega þvottavél — en maður verður að kaupa mat.

Enn fremur set ég spurningarmerki við ýmsar forsendur tekjuhliðar í frumvarpinu. Samkvæmt því eigum við að eiga um 4 milljarða í afgang. Gott og vel, en hvernig? Þessir 4 milljarðar koma með ótryggum bankaskatti, með því að gera skuld ríkisins við Seðlabankann vaxtalausa og með því að láta ríkisbanka greiða háan arð. Samanlagt gerir þetta um 15% af tekjum ríkissjóðs. Gleymum því ekki að það á enn eftir að sjá hvort það stenst lög að skattleggja þrotabú og skuldir en það eru fá, ef nokkur, fordæmi fyrir slíkri skattlagningu í heiminum.

Hvað ef ekki, hæstv. ráðherra, erum við þá með plan B? Eigum við að treysta á arðgreiðslu bankanna til að loka fjárlagagatinu um ókomin ár? Hvað gerist þegar við seljum stóran hluta af Landsbankanum eins og til stendur? Hvað ef áætlaðar tekjur af virðisaukaskatti verða minni vegna minni hagvaxtar? Þetta eru vafaatriði sem verða ekki leidd til lykta fyrr en árið 2015 líður. En það er víst að þetta stendur ansi tæpt.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur orðið tíðrætt um einföldun skatta og það er nokkuð sem okkur í Bjartri framtíð hugnast mjög vel. Til að skattkerfi sé skilvirkt þarf fólk að skilja það, ekki síst þeir sem innheimta eiga skatta fyrir ríkið. Þegar um virðisauka er að ræða er það einmitt fólk og fyrirtæki í rekstri sem eiga að innheimta þá, ekki bara stór fyrirtæki sem eru með sérstaka bókhaldsdeild heldur líka sjálfstæða hárgreiðslukonan og forritarinn sem er með tvo í vinnu. Gleymum því nefnilega ekki að örfyrirtæki eru um 90% íslensks atvinnulífs. Oft er þetta fólk í blönduðum rekstri og þá meina ég í nokkrum skattþrepum. Það er oft mikill frumskógur að skilja virðisaukaskattslögin og telja rétt fram. Það er því miður ekkert í þessu frumvarpi sem einfaldar þeim skilin eða gerir þetta eitthvað einfaldara. Það verður ekkert einfaldara í skattkerfinu við að hækka 7% þrepið í 12% og lækka 25,5% í 24%. Eftir því sem ég best sé er ein einföldun í þessu kerfi og hún er sú að taka fólksflutninga til afþreyingar úr 0%. Það eru ekki fleiri einfaldanir eins og ég sé það.

Það sem verður hins vegar til einföldunar er afnám almennra vörugjalda og við fögnum því í Bjartri framtíð svo það sé fært til bókar. Það er mjög gott mál. Mér leikur samt forvitni á að skilja hvernig aðrir hlutir einfaldast. Því er ósvarað enn sem komið er, þó er ég búin að hlusta á nærri alla þessa fjárlagaumræðu. Ég vona að frumvarpið fái vandaða meðferð í nefndinni og þinginu og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra beri gæfu til að vera tilbúinn að skoða þessar athugasemdir með opnum huga.

Ég lýsi yfir vilja okkar í Bjartri framtíð til málefnalegra umræðna og tillagna til úrbóta á þessu frumvarpi.