144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Örstutt. Umgengnisforeldri njóta góðs af lækkun efra þrepsins. Tekjur ríkissjóðs dragast saman um um það bil 7,5 milljarða og þar er ekki gert upp á milli þjóðfélagshópa. Það eru langflestir að greiða meginþorra virðisaukaskatts í efra þrepinu. Það gildir um umgengnisforeldra, tekjuhópa með lág laun, millilaun og efri tekjuhópana. Þetta er mótvægisaðgerð.

Það felst líka mótvægisaðgerð í afnámi vörugjaldanna. Hún skilar sér jafnt, hún skilar sér annars vegar út í verðlagið og hins vegar í innkaupakörfuna vegna þeirra vara sem þar eru. Ég heyri það oft nefnt í þessari umræðu að fólk sé ekki að kaupa ísskáp á hverjum degi eða í hverjum mánuði. Það er alveg rétt. En það er hins vegar ísskápur inni á hverju heimili, þannig er það. Og það er fullt af fólki sem á ekki ísskáp. Viti menn, það mundu skapast vandræði ef ekki yrðu fluttir inn ísskápar. Hvað verður um alla þessa ísskápa? Þeir fara inn á heimilin, þessir ísskápar. Fólk kaupir ísskápa. Ungt fólk sem er að hefja búskap kaupir ísskáp, það kaupir eldavél, það kaupir ofn, það kaupir klósett og leggur flísar og parket og er með raflagnir. Það kaupir varahluti í bíla. Það eru 800 vöruflokkar í vörugjaldakerfinu. Við erum að þurrka þetta út. Ekkert 15% vörugjald, ekkert 20% vörugjald, ekkert 25% vörugjald á um 800 vöruflokka. Þeir sem sjá ekki að þetta skiptir máli sjá ekki skóginn fyrir trjám.