144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:11]
Horfa

Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í ræðu minni þá erum við í Bjartri framtíð mjög ánægð með afnám vörugjalda og við hrósuðum ríkisstjórninni fyrir það, það er alveg klárt mál. Ég keypti síðast ísskáp fyrir 10 árum en ég fór í Bónus í gær. Ef ég tilheyrði einum fátækasta hóp Íslands, umgengnisforeldrum sem þurfa að sjá fyrir börnum viku og viku, njóta ekki barnabóta, njóta ekki ákveðinna kjara hjá LÍN þegar þeir taka námslán, þó að ég hafi ekki talað um það hingað til, væri ég ekki að fara að kaupa mér þurrkara. Það er bara þannig. Og eins og ég sagði áðan þá geri ég mér grein fyrir því að þetta eru ekki bara lúxusvörur; fullt af vörum þarna og þjónustu sem við notum og það er gott og vel. En engu að síður gagnast þessar mótvægisaðgerðir sem nefndar voru fyrir barnafólk ekki þessum hópi. Þetta er bara einn hópur sem ég nefni. Auðvitað eru aðrir hópar sem eru barnlausir eða njóta engra mótvægisaðgerða og það var einfaldlega það sem ég var að segja. Ég er eiginlega engu nær um það.